Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingar, segir að stjórnmálamenn þurfi að lofa minna af öllu, en í staðinn fáist meiri umhyggja og jöfnuður. Hún er stödd á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi þar sem hún ræddi við forsætisráðherra Danmerkur og leiðtoga Jafnaðarmannaflokksins, Mette Frederiksen, um umhverfismál.
„Spurði danska forsætisráðherrann um hugmynd sem ég heyrði fyrst frá Andra Snæ Magnasyni, um hvernig henni litist á þá hugmynd að þeir sem keyra bensín og díselbíla skilji bílinn eftir heima tíunda hvern dag á árinu 2020 og geri svo enn betur næstu ár,“ skrifar Oddný á Facebook. „Forsætisráðherranum leist mjög illa á þessa hugmynd. Fólk þyrfti að komast leiðar sinnar og finna ætti frekar nýja orkugjafa í staðinn.“
Hún segir að erfitt verði fyrir Dani að ná 70% markmiðum sínum um minni losun fyrir 2040. „Einkum ef það má ekki kosta neinar breytingar í hegðun eða neysluvenjum almennings.“
Oddný er ósammála þessum sjónarmiðum forsætisráðherrans. „Þegar Benedikt Erlingsson tók við norrænu kvikmyndaverðlaununum í fyrra fyrir myndina Kona fer í stríð, sagði hann eitthvað á þá leið að stjórnmálamenn þyrftu að lofa minna af öllu; minna dót, minna kjöt, færri ferðalög en í staðinn meira af ást. Ég held að þetta sé rétt hjá Benedikt en vonandi fáum við í breytingaferlinu í kaupbæti meiri umhyggju og jöfnuð,“ skrifar hún.
Athugasemdir