Seðlabanki Íslands var í morgun dæmdur til að afhenda Ara Brynjólfssyni, blaðamanni á Fréttablaðinu, upplýsinga um samning sem gerður hafði verið við fyrrverandi framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits bankans. Seðlabankinn höfðaði mál á hendur Ara til að komast hjá því að veita honum upplýsingarnar eftir að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafði úrskurðað að bankanum bæri að veita þær.
Umræddar upplýsingar snúa að samningi sem Már Guðmundsson, þáverandi Seðlabankastjóri, hafði gert við Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, fyrrverandi framkvædastjóra gjaldeyriseftirlits bankans. Eftir heimildum Ara var gerður starfslokasamningur við Ingibjörgu sem meðal annars gekk út á að hún fengi greiddan námsstyrk við Harvard-háskóla en einnig laun án þess að vinnuframlag kæmi á móti.
Ari óskaði eftir upplýsingunum í nóvember á síðasta ári en Seðlabankinn synjaði honum um þær upplýsingar. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tók málið fyrir og tók það nefndin fimm mánuði að kveða upp úrskurð, Ara í vil. Því vildi Seðlabankinn ekki una og stefndi Ara fyrir dómstóla til að koma í veg fyrir að hann fengi umbeðnar upplýsingar. Því dómsmáli tapaði bankinn sem fyrr segir í morgun en ekki er ljóst hvort dómnum verði áfrýjað.
„Ég fagna niðurstöðunni, það blasti allan tímann við að Seðlabankanum væri skylt að afhenda þessi gögn. Ég á hins vegar eftir að fara yfir niðurstöðunna með lögmanni mínum og fá það á hreint hvort Seðlabankinn ætlar að reyna að tefja afhendingu gagnanna eitthvað frekar," sagði Ari í samtali við Stundina.
Athugasemdir