Virtasta endurhæfingarstofnun Íslands er undir stjórn áhugamannafélags og nánast óvinnufær vegna deilna um peninga en ríkið greiðir tvo milljarða með starfseminni. Í vikunni svipti ungur maður sig lífi á meðferðarstöð í Krýsuvík sem landlæknir hefur gefið falleinkunn en fjárlaganefnd heldur samt áfram að styðja um 120 milljónir á ári.
Í báðum þessum fréttum er fjallað um þætti í velferðarkerfinu sem gjarnan verða út undan í opinbera heilbrigðiskerfinu og eru á hendi áhugasamtaka. Í þriðju fréttinni er vakin athygli á því að í jafnréttisparadísinni Íslandi er umönnun sjúkra og veikra að stórum hluta á hendi kvenna sem þurfa að bæta því ofan á önnur störf. Á sama tíma furða stjórnmálamenn sig á fjölgun kvenna yfir fimmtugt sem verða öryrkjar.
Rifrildi kemur niður á endurhæfingu
Reykjalundur er stofnun sem hefur notið mikillar virðingar fyrir árangursríka starfsemi en hún er núna komin á hliðina vegna rifrildis stjórnar SÍBS og stjórnenda Reykjalundar um skipurit og hvort nýta eigi leigutekjur af húsnæði á Reykjalundi á stofnuninni sjálfri eða hvort stjórn SÍBS geti varið þeim öðruvísi. Í þessum bardaga fuku hausar forstjóra og lækningaforstjóra, starfsfólkið varð nánast óvinnufært, stórkarlalegar yfirlýsingar flugu og sjúklingarnir voru sendir heim svo stríðandi fylkingar gætu rifist í friði.
Það virðist vera að áratuga faglegt starf sé í uppnámi út af þessari ómerkilegu deilu en á meðan bíður fjöldi fólks eftir endurhæfingu. Miklu fleiri en hægt er að sinna.
Orustur eru þannig háðar með jöfnu millibili inni á stofnunum sem hafa það göfuga hlutverk með höndum að styðja veikt eða fatlað fólk til betra lífs. Þarna er verið að takast á um völd og peningana sem er aflað hjá ríkinu eða almenningi til að reka starfsemi sem nýtur mikillar velvildar í samfélaginu en ríkið vanrækir að sinna og kýs að fela áhugamannafélagi.
Þegar stjórnvöld nenna ekki
Maður fær dálítið óbragð í munninn vegna þess að þegar verið er að safna peningum er maður fullvissaður um að þeir renni allir til hins góða starfs en einhvern veginn virðast margir dúkka upp í moldviðrinu sem eru á launaskrá eða með verulega hagsmuni sem ekki koma starfseminni neitt við.
Stjórnvöld kjósa oftast að líta framhjá þessu enda yfirleitt guðslifandi fegin ef einhver annar nennir að sinna gömlu, fötluðu, slösuðu, langveiku og geðsjúku fólki, því þau nenna því helst ekki sjálf nema helst í bráðatilfellum.
Félag endurhæfingarlækna segir í ályktun að áhugamannafélög og sjúklingasamtök séu ekki til þess fallin að stýra heilbrigðisstofnun sem veitir þjónustu sem greidd er af almannafé í ljósi þess sem gerðist á Reykjalundi. Þá bendir það enn fremur á nýlegt dæmi frá Heilsustofnun NLFÍ þar sem lækni, sem gegndi starfi yfirlæknis og framkvæmdastjóra, var sagt upp fyrirvaralaust vegna gagnrýni á ráðstöfun fjármuna stofnunar sem nýtur framlags úr ríkissjóði.
Eftirlitslaus í meðferð svipti sig lífi
Sjálfseignarstofnanir sem veita heilbrigðisþjónustu hafa verið nánast hafnar yfir gagnrýni í ljósi þess göfuga starfs sem þær inna af hendi. Kannski sýna þó nýjustu atburðir að þetta fyrirkomulag er úrelt og það smákóngaveldi sem það hefur í för með sér. Fjárveitingavaldið þarf að vera miklu virkara þegar kemur að meðferð fjármuna. Best væri líka ef öll starfsemi þeirra sem snýr að heilbrigðisþjónustu yrði felld undir stjórn Landspítalans þótt stofnanirnar gætu haldið sjálfstæði sínu að einhverju leyti.
Um helgina var frétt á vefmiðlinum Hringbraut af sjálfsvígi ungs manns á meðferðarheimilinu Krýsuvík. Hann virðist hafa verið þar eftirlitslaus ásamt öðrum skjólstæðingum heimilisins um helgi þar sem starfsfólkið var í helgarfríi. Meðferðarheimilið hefur áður komist í fréttir þar sem meðferð fjármuna hefur verið gagnrýnd sem og reynsluleysi starfsmanna. Þá var starfsmaður kærður fyrir kynferðisbrot og skjólstæðingur lést eftir að hafa verið vísað á götuna með engum fyrirvara. Landlæknir gaf heimilinu falleinkunn árið 2016 en samt sem áður hefur fjárveitingavaldið greitt 120 milljónir á ári með heimilinu, auk þess sem starfsemin er rekin fyrir söfnunarfé.
Það þarf meira til
Meðan stjórnmálamenn ræða alvarlegir um að ungum mönnum með fíknivanda og geðraskanir sé að fjölga á örorku er lítill skilningur á því að það sé ekki hægt að fela hverjum sem er að annast um geðsjúka og alkóhólista. Þessi hópur þarf meiri stuðning en að láta renna af sér. En það er kannski ekki málið að loka hann inni á afskekktum stað á ábyrgð fólks með takmarkaða reynslu. Það þarf talsverða forherðingu til að verja slíkt fyrirkomulag eftir að Byrgismálið kom upp sem lyktaði með margra ára fangelsisdómi forstöðumannsins fyrir kynferðisbrot og fjársvik.
„Það er kannski ekki málið að loka hann inni á afskekktum stað á ábyrgð fólks með takmarkaða reynslu“
En það er samt ekki nóg að loka slíku heimili, það þarf eitthvað annað að koma í staðinn.
Á Íslandi þarf fólk helst að hætta að vinna til að sinna langveikum, fötluðum eða veikum aðstandendum. Fólk sem á ekki maka á háum launum og getur ekki leyft sér að sinna umönnun náinna ættingja i fullu starfi er í hættu að brenna upp og verða sjálft öryrkjar og þurfa umönnun. Níu prósent Íslendinga eru í þessari stöðu en hlutfallið er einungis fjögur prósent í allri Evrópu og hlutfallið er enn lægra á Norðurlöndum samkvæmt nýrri skýrslu Eurostat. Oftast kemur þetta í hlut kvenna og skýrir vaxandi örorku meðal kvenna á aldrinum 50 til 66 ára sem bila undan tvöföldu vinnuálagi.
Niðurlægjandi þrautarganga
Yfirvöld reiða sig þannig á meðvirkni og hjartahlýju kvenna til að það flæði ekki undan velferðarkerfinu. Láglaunakonur vinna erfið störf við að passa sjúka, veika og gamla fyrir lág laun. Launin eru samt of há að mati yfirvalda til að hægt sé að fjölga úrræðum og þess vegna tekur við hjá sumum þeirra annar fullur vinnudagur þegar heim er komið. Þegar konurnar örmagnast og bila undan álaginu tekur við niðurlægjandi þrautarganga í kerfinu sem oft endar með örorku. Þeir sem eru efnameiri geta oft lifað af einum eða einum og hálfum launum og/eða keypt sér aðstoð sem ekki er annars í boði. Og svo má ekki gleyma þeim sem eru einstæðingar og eiga ekki fjölskyldur til að annast um sig.
„Láglaunakonur vinna erfið störf við að passa sjúka, veika og gamla fyrir lág laun“
Þetta er risastór skekkja í jafnréttisþjóðfélaginu Íslandi sem sýnir svart á hvítu hvað umhyggja, umönnun, endurhæfing og stuðningur til betra lífs nýtur lítillar viðurkenningar í velferðarkerfinu. Góðir hlutir gerast hægt og það er ekki hægt að mæla allan árangur milli kosninga til Alþingis. Við getum vissulega valið að sinna þessu ekki neitt, eða sinna því illa, reiða okkur nær alfarið á áhugasamtök eða ýta vandanum inn á heimilin. Reikningurinn kemur samt sem áður til okkar og er jafnvel talsvert hærri en hann hefði þurft að vera.
Athugasemdir