Svein Harald Øygard, fyrrverandi seðlabankastjóri Íslands, braut siðareglur Alþjóðlega greiðslubankans til að gera samning við Kína um gjaldeyrisskipti árið 2009. Svíar reyndust hins vegar erfiðir í viðræðum um lánsfé á meðan Pólverjar og Færeyingar veittu skilyrðislausa hjálp í kjölfar hruns.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri bók Øygard sem ber titilinn „Í víglínu íslenskra fjármála“ og inniheldur fjölda frásagna af samskiptum hans við stjórnmálamenn og aðila í fjármálaheiminum um orsakir og afleiðingar bankahrunsins 2008. Øygard er norskur hagfræðingur sem gegndi embætti seðlabankastjóra á Íslandi frá febrúar til ágúst 2009. Hann var kallaður til af minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar í ársbyrjun 2009 til að fylla skarð Davíðs Oddssonar eftir að honum var ýtt úr Seðlabanka Íslands með lagabreytingu.
Í bókinni lýsir Øygard samskiptum sínum við erlenda seðlabankastjóra í Alþjóðlega greiðslubankanum (BIS) í Basel í Sviss. „Inni í byggingunni eru allir seðlabankastjórarnir með sína skrifstofu,“ skrifar hann. „Meira að segja ég á tímabili. Ég mætti á fund BIS í fyrsta skipti og það gladdi mig að sjá nafnið mitt á hurðinni á nýju, svissnesku skrifstofunni minni. Allt var til reiðu, eins og Svisslendinga var von og vísa.“
Kínverski sendiherrann í Reykjavík hafði rætt við stjórnvöld um stuðning frá Kínverjum vorið 2009. „Á næsta fundi BIS hlustaði ég á viðræður sem leiddu ekki til neins og ákvað að knýja dyra hjá seðlabankastjóra Alþýðulýðveldisins Kína,“ skrifar Øygard. „Alveg gráupplagt. Hann var með skrifstofu við hliðina á minni. Og við vorum starfsbræður. „Þetta var gróft brot á siðareglum,“ sagði einn ráðgjafa minna síðar. „Við vorum í sjokki, en hlógum líka mikið.““
Hann segir kínverska seðlabankastjórann hafa verið afar vinsamlegan og fróðan um kreppuna á Íslandi. „Við hófum viðræður sem leiddu síðar til gjaldmiðilsskiptasamnings milli Seðlabankans og Kína. Hann var að upphæð 66 milljarðar íslenskra króna, 3,5 milljarðar kínverskra júana eða 512,5 milljónir bandaríkjadollara. Ekki sem verst.“
Ísland varð þannig fyrsta vestræna þjóðin sem gerði samning við Kína um gjaldmiðilsskipti. „Ég sagði að það væri bara eðlilegt að kínverski gjaldmiðillinn yrði brátt einn sá helsti á heimsvísu. Það gladdi kínverska seðlabankastjórann. Þeir sem næstir gerðu gjaldmiðilsskiptasamning við Kínverja voru Bretar, þremur árum síðar. Ísland varð síðar fyrsta ríki Evrópu til að gera fríverslunarsamning við Kína.“
„Það er ekki oft sem hægt er að gera að gamni sínu í hópi seðlabankastjóra“
Að umræðunum loknum fóru þeir saman í mat. „Þar slógust í hópinn rússneski seðlabankastjórinn og seðlabankastjóri Bandaríkjanna. Meðlimur norrænu sendinefndarinnar kom að máli við mig og spurði hvernig það væri að funda með svo háttsettum einstaklingum. Ég svaraði því til að þetta hefði verið „fundur G4“: Kína, Rússland, Bandaríkin og Ísland. Við seðlabankastjórar G4 skelltum upp úr. Það er ekki oft sem hægt er að gera að gamni sínu í hópi seðlabankastjóra.“
Svíar reyndust óbilgjarnir
Øygard og Steingrímur J. Sigfússon, þá fjármálaráðherra, höfðu áður leitað fjármagns, erlends gjaldeyris til að styrkja krónuna. Fyrsta viðkoman var í Færeyjum og var lánssamningur undirritaður 23. mars 2009. „Allt lánið átti að greiðast út til okkar í heilu lagi strax. Engin skilyrði voru sett og hvergi var minnst á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Norðurlönd eða Icesave. Þá settu Færeyingar lága vexti á lánið, ekki nema 0,15 prósent. Lánið var heilar 300 milljónir danskra króna. Meira en 1200 dollarar frá hverjum Færeyingi.“
„Meira en 1200 dollarar frá hverjum Færeyingi“
Í framhaldinu voru svo undirritaðir samningar við Danmörku, Noreg, Finnland og Svíþjóð um lán upp á alls 1775 milljónir evra, en Norðurlöndin létu skilyrða lánveitinguna við endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). „Í fyrstu höfðu Svíar lagst gegn láninu en síðan skipt um skoðun og krafist þess að leggja fram hæsta skerfinn,“ skrifar Øygard. „Það var táknrænt fyrir þá stöðu sem þeir telja sig hafa sem leiðandi Norðurlandaþjóð.“
Á sama tíma var mikill þrýstingur frá Bretum og Hollendingum um lausn Icesave deilunnar. „Þetta var allt hringstreymi,“ skrifar Øygard. „Norrænu lánin voru háð AGS, sem var háð norrænu lánunum. Hvor aðilinn um sig gat, með réttu eður ei, kennt mótaðilanum um. Hjá AGS var atkvæðavægi Breta og Hollendinga þyngra en vægi allra atkvæða frá Afríku. Bretar og Hollendingar skárust í leikinn og kröfðust endurgreiðslu á fé sem þeir höfðu greitt innstæðueigendum í viðkomandi löndum. Önnur ríki ESB studdu þessa kröfu þeirra. Svíþjóð var í forsæti ESB á fyrra misseri ársins 2009 og hampaði áliti ESB. Svíar voru líka talsmenn Norðurlandabúa innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og hefðu að öllu jöfnu verið stuðningsmenn íslensku áætlunarinnar. Því var ekki að heilsa í þetta sinn.“
Stuðningur frá stórum og litlum
Pólverjar buðu einnig lán upp á andvirði 200 milljóna bandaríkjadollara, en þeir settu enga kröfu um lausn Icesave deilunnar. „Ekki gefast upp fyrir Bretum,“ hefur Øygard eftir ónafngreindum Pólverjum hjá BIS.
Þannig kom stuðningur frá Færeyjum, Kína og löndum allt þar á milli í mannfjölda. „Land með 48 þúsund íbúa lagði sitt af mörkum og líka annað land þar sem íbúar voru 1,350 milljarður. Sumir vinanna sýndu stuðning en aðrir ekki.“
Øygard mun tala á opnum fundi Norræna félagsins í Reykjavík á morgun sem ber yfirskriftina „Hrunið, endurreisnin og Norðurlöndin - vinir í raun, eða hvað?“ Á fundinum munu Øygard og Steingrímur J. Sigfússon, nú forseti Alþingis og fyrrum fjármálaráðherra, segja frá upplifun sinni af hrunsárunum og endurreisninni og fjalla um hvort og þá hvernig norrænt samstarf hafi þar skipt máli.
Fundurinn fer fram í húsnæði Norræna félagsins, Óðinsgötu 7, við Óðinstorg og hefst kl. 17:00.
Athugasemdir