Aksturgreiðslur til þingmanna hafa lækkað umtalsvert á þessu ári samanborið við síðustu ár. Reiknað er með því að kostnaður vegna aksturs þingmanna muni í lok þessa árs hafa dregist saman um 40 prósent frá árinu 2017. Kostnaður vegna aksturs þingmanna nam alls 42,7 milljónum króna árið 2017, í fyrra hafði upphæðin lækkað niður í 30,7 milljónir og í ár er reiknað með því að kostnaðurinn endi í 26,1 milljón.
Á fyrstu átta mánuðum þessa árs hafa þingmenn landsins fengið tæplega 2,4 milljónir greiddar vegna aksturs eigin bifreiða og reiknað er með því að heildargreiðslurnar verði 4,1 milljón á árinu. Á síðasta ári var heildarupphæðin 8,4 milljónir og því fyrirséð að greiðslurnar verði rúmlega helmingi minni milli ára.
Ástæðuna fyrir þessari lækkun virðist mega rekja til þess að upplýsingar sem almenningi var áður neitað um eru nú birtar mánaðarlega á vef Alþingis.
Athugasemdir