Þetta og svo ótal margt fleira er á döfinni næstu tvær vikurnar.
Sequences listahátíð
Hvar? Reykjavík
Hvenær? 11.–20. október
Aðgangseyrir: Fer eftir viðburðinum
Tvíæringa-myndlistarhátíðin Sequences er haldin í níunda skiptið, en hún einblínir á framsækna nútímasjónlist. 34 listamenn taka þátt í hátíðinni að þessu sinni og spannar framlag þeirra vítt svið; tónlist, texta, kvikmyndir, innsetningar, teikningar og skúlptúra svo eitthvað sé nefnt. Heiðurslistamaður hátíðarinnar er Kristinn Guðbrandur Harðarson, en hann hefur verið virkur í íslensku myndlistarlífi um áratuga skeið. Í verkum Kristins á sér stað persónuleg og ljóðræn úrvinnsla á hans nánasta umhverfi þar sem hann notast við fjölbreyttar miðlunarleiðir, texta, útsaum, skúlptúra, veggmálverk, teiknimyndir og gjörninga svo fátt eitt sé nefnt. Hátíðin er haldin í Ásmundarsal, Bíó Paradís, Fríkirkjunni, Hafnarhúsinu, Harbinger, Kling & Bang, Marshallhúsinu, Nýlistasafninu og Open.
Shakespeare verður ástfanginn
Hvar? Þjóðleikhúsið
Hvenær? 4. okt. til 6. nóv.
Aðgangseyrir: Frá 2.500 kr.
Fáir leikhöfundar eru jafn frægir og skáldið sjálft, William Shakespeare, og hafa ófá verk verið skrifuð um hans persónu. Meðal þeirra var Óskarsverðlaunamyndin Shakespeare in Love sem kom út 1998, en leikrit byggt á sömu sögu hefur farið sigurför um England og er nú komið til Íslandsstranda. Spunnið er frjálslega úr ævi skáldsins í þessum rómantíska gamanleik.
APE OUT: Leikandi tónlist, lifandi leikur
Hvar? Mengi
Hvenær? 4. okt. kl. 21.00
Aðgangseyrir: 2.000 kr.
Þessi viðburður markar nýja gerð af tónspuna, en hann felur í sér samspil tveggja djasstónlistarmanna og tölvuleikjaspilara. Gjörningnum svipar til lifandi undirspils þögulla bíómynda, nema þá að í þessum þurfa flytjendur að túlka það sem er að gerast í leiknum í rauntíma. Leikurinn APE OUT er flóttasaga górillu í hefndarhug gegn mennsku föngurum sínum. Gjörningurinn var frumfluttur á Isle of Games í sumar.
Tímaflakk í tónheimum
Hvar? Harpa
Hvenær? 5. okt. kl. 14.00
Aðgangseyrir: Frá 2.600 kr.
Þetta eru fyrstu tónleikar Litla tónsprotans, fjölskylduröð Sinfóníuhljómsveitar Íslands, en á þeim er tónleikagestum boðið í tímaflakk um tónheima þar sem Sinfóníuhljómsveitin staldrar við vel valin og merk kennileiti á tímaási tónlistarsögunnar. Hlustendur á öllum aldri verða leiddir á lifandi hátt um lendur og dali, klífa hæstu tinda og kanna dulúðugar sögusagnir um vatnaskrímsli og goðsagnir á þurru landi.
Une Misère, Elli Grill, Volcanova
Hvar? Dillon
Hvenær? 5. okt. kl. 22.00
Aðgangseyrir: 2.500 kr.
Íslenska dúndursveitin Une Misère hefur verið leiðandi afl í þungarokki á Íslandi, en eitt helsta áherslumál hennar er andleg heilsa ungra karlmanna. Sveitin er komin heim úr sumartúr um Evrópu og gefur breiðskífuna Sermon út næsta mánuð. Með þeim spila Suðurríkja-rokkararnir Volcanova og klikkaðasti og grillaðasti rappari landsins, Elli Grill.
Stórsveit Reykjavíkur fagnar Nat King Cole
Hvar? Harpa
Hvenær? 6. okt. kl. 20.00
Aðgangseyrir: Frá 4.990 kr.
Stórsveit Reykjavíkur fagnar 100 ára afmæli stórsöngvarans Nat King Cole og minnist um leið dóttur hans, söngkonunnar Natalie Cole. Flutt verður tónlist frá öllum ferli söngvarans og komið við á hinni vinsælu plötu dótturinnar, Unforgettable, þar sem hún minntist föður síns og söng með honum.
Um tímann og vatnið
Hvar? Borgarleikhúsið
Hvenær? 8. & 22. okt. kl. 20.00
Aðgangseyrir: 3.900 kr.
Ný bók Andra Snæs Magnasonar, Um tímann og vatnið, fjallar um stóru breytingarnar sem vísindamenn sjá fyrir sér á næstu 100 árum hvað varðar eðli alls vatns á jörðinni. Þegar jöklar bráðna, hafsborðið rís, höfin súrna og veðrakerfin fara úr jafnvægi. Bókin er ferðasaga, heimssaga og fjölskyldusaga, en Andri Snær heldur nokkur sagnakvöld í tilefni útgáfunnar á stóra sviði Borgarleikhússins.
Fleabag í beinni
Hvar? Bíó Paradís
Hvenær? 8. & 13. okt. kl. 20.00
Aðgangseyrir: 2.000 kr.
Fleabag hefur hlotið lof sem ein af bestu og skemmtilegustu sjónvarpsseríum þessarar aldar. Þessi persóna, sem er sköpuð og leikin af Phoebe Waller-Bridge, er ein hispurslausasta, kaldhæðnasta og óvægnasta dónakelling sem komið hefur fram í sjónvarpi. Hugmyndin byrjaði sem einleikur á sviði sem Waller-Bridge er að flytja aftur. Þessi sýning verður sýnd í beinni frá Þjóðleikhúsi Bretlands vörpuð á tjald Bíó Paradís.
Gerum skandala
Hvar? Loft
Hvenær? 10. okt. kl. 20.00
Aðgangseyrir: Ókeypis!
Hvort sem þú ert áhugapenni í leit að uppbyggilegri gagnrýni, eða lengra kominn höfundur með ritstíflu þá er þetta kvöld fyrir þig. Aðstandendur (and)menningarritsins Skandali hafa skipulagt þennan viðburð, en ritið snýst allt um frjálsa tjáningu, um að losna við óttann við mistök, að vilja deila verkum. Nokkur vel valin verk verða lesin áður en skrif hefjast, en eftir það býðst þátttakendum að deila afrakstri sínum.
Skúraleiðingar #1
Hvar? Hard Rock Cafè
Hvenær? 10. okt. kl. 21.00
Aðgangseyrir: 1.000 kr.
Það verður líf og fjör þegar nokkrar bílskúrshljómsveitir koma úr skúrnum í haust og stinga í samband. Á þremur fimmtudagskvöldum munu þrjár hljómsveitir troða upp í hvert skipti og flytja frumsamið efni og ábreiður í bland. Búast má við rokki, pönki, blús og öðru slíku. Á þessu fyrsta kvöldi koma fram Kallabandið, Nostalgía og Band nútímans.
Moses Hightower
Hvar? Háskólabíó
Hvenær? 11. október kl. 21.00
Aðgangseyrir: 5.900 kr.
Ljúflingarnir í Moses Hightower gáfu út plötuna Fjallaloft fyrir tveimur árum, en á henni heldur hljómsveitin áfram að fjalla um náin viðfangsefni á blíðan hátt með silkimjúku undirspili. Haldnir voru útgáfutónleikar í Háskólabíói 2017, en sveitin segir að færri komust að en vildu og því blása þeir til aukatónleika tveimur árum síðar.
Hrekkjavökusýning Drag-Súgs
Hvar? Gaukurinn
Hvenær? 11. okt. kl. 21.00
Aðgangseyrir: 2.900 kr.
Dragdrottningarnar (og -konungarnir) í kabaretthópnum Drag-Súgur fagna hrekkjavöku snemma með sérstakri sýningu fullri af glamúr og blóði. Búast má við gríni og glensi og metnaðarfullum tilþrifum sem RPDR mætti taka sér til fyrirmyndar. Ástralski grínistinn Jonathan Duffy er kynnirinn þetta draugalega kvöld.
Krummi
Hvar? Djúpið, Hornið
Hvenær? 12. okt. kl. 21.00
Aðgangseyrir: 3.000 kr.
Krummi Björgvinsson hefur komið víða við í tónlistarsögu Íslands, en hann var einn af forsprökkum Mínuss, Legend, Esju og Döpur. Nú hefur hann skilið eftir rafmögnuðu hljóðfærin og öskrin og fundið sig með sólóverkefni sem er skírskotun í þá þjóðlagatónlist og útlagakántrí sem var vinsælt á sjötta og sjöunda áratugnum.
Eintal
Hvar? Listasafn íslands
Hvenær? 12. okt. til 26. jan.
Aðgangseyrir: 2.000 kr.
Eintal er yfirlitssýning á verkum Jóhönnu Kristínar Yngvadóttur (1953−1991) sem kom stuttlega fram á sjónarsviðið á níunda áratug síðustu aldar með eftirminnilegum hætti. Expressjónísk málverk Jóhönnu Kristínar vöktu eindæma hrifningu samferðamanna hennar og lofuðu gagnrýnendur einum rómi þennan unga listamann sem þótti óvenju þroskaður og fágaður. Samhliða þessari yfirlitssýningu verður gefin út bók um listferil Jóhönnu.
EITTHVAÐ úr ENGU
Hvar? Hafnarhúsið
Hvenær? Til 12. jan.
Aðgangseyrir: 1.800 kr.
Magnús Pálsson á að baki sér langan feril sem listamaður og kennari, en hann hefur unnið í sýningum í leikhúsum, sem gjörningalistamaður og myndlistarmaður. Á þessari sýningu er áherslan á efnislegan myndheim listamannsins. Valin eru saman verk frá því snemma á sjöunda áratugnum til samtímans sem endurspegla þá frjósömu hugsun sem einkennir verk Magnúsar. Hinn 17. október klukkan 20.00 býður sýningarstjóri upp á leiðsögn um sýninguna.
Athugasemdir