Ég er einn af þeim sem er þeirrar skoðunar að gefa eigi áfengissölu frjálsa hér á landi. Það er mér þó kannski ekki hjartans mál og ég er til í að hlusta á rök þeirra sem eru á öndverðum meiði. Ég vil þó fleyta hugmynd sem hlýtur að mega ræða af beggja hálfu. Hún er eftirfarandi: Mætti ekki breyta lögum þannig að í ákveðnum byggðarlögum fái verslanir heimild til að selja áfengi í smásölu, með einhvers konar þjónustusamningi við ÁTVR?
Tökum dæmi. Verkefnið Brothættar byggðir hefur á undanförnum árum styrkt verslunarrekstur í Norðurfirði á Ströndum, Borgarfirði eystri, Grímsey og í Hrísey. Á þessum stöðum öllum hefur verslunarrekstur átt erfitt uppdráttar og stundum legið niðri um hríð. Ég er hins vegar viss um að það myndi skjóta stoðum undir verslanir á þessum stöðum ef þær fengju heimild til sölu á áfengi með einhverjum takmörkuðum hætti.
Það eru hundrað kílómetrar frá Hólmavík, þar sem er vínbúð, upp í Norðurfjörð, þrír fjórðu á möl. Það hlyti að skipta rekstrarlegu máli að verslun þar gæti selt túristum og heimamönnum bjór og vín. Þetta ætti síðan við um miklu fleiri byggðarlög, ég gæti nefnt Suðureyri, Flateyri og Þingeyri á Vestfjörðum og Raufarhöfn og Bakkafjörð á Norðausturlandi (sem einmitt eru í hópi Brothættra byggða). Þó ég nefni þessi dæmi sérstaklega eru enn fleiri staðir þar sem þetta gæti átt við.
Áfram yrðu vínbúðir reknar á stærri stöðum eins og nú er. Áfram yrði hægt að panta vín í næstu vínbúð, en einnig mætti velta fyrir sér hvort það mætti ekki allt eins panta það í þessar verslanir sem hefðu slíkan þjónustusamning. Þar með yrði tryggt að ekki drægi úr úrvali.
Neytendur fengju með þessu aukna og betri þjónustu, sem má alveg færa rök fyrir að þeir eigi tilkall til, svona í ljósi þess að ÁTVR er ríkisrekið. Frekari stoðum yrði skotið undir verslunarrekstur á jaðarsvæðum og í brothættum byggðum. Mér þætti það alla vega tilraunarinnar virði.
Athugasemdir