Yfir 15 prósent af nemendum í 10. bekk á Íslandi eru hugsanlega háðir rafrettum. Þetta kemur fram í skýrslu um heilsu og líðan grunnskólanemenda sem var lögð fyrir fund skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar nýverið og Fréttablaðið greinir frá í dag. „Þetta eru ótrúlegar tölur og eitthvað sem við þurfum að taka alvarlega,“ segir Ársæll, M. Arnarson, annar skýrsluhöfunda.
Í könnun sem yfir 7.000 nemendur um allt land svöruðu kemur fram að 65 prósent þeirra hafa aldrei prófað að reykja rafrettur en um 20 prósent hafa fiktað mismikið við slíkt. 15,2 prósent segjast hafa reykt rafrettur oftar en 30 daga yfir ævina og eru því hugsanlega háðir reykingunum, samkvæmt skýrslunni.
Að mati Ársæls er sorglegt að sjá svo háar tölur meðal ungra krakka þar sem mikill árangur hafi náðst í baráttunni gegn hefðbundnum tóbaksreykingum undanfarin ár „Þetta gengur þvert á allt sem við höfum verið að berjast fyrir,“ segir hann. „Það eru engar rannsóknir sem hafa sýnt fram á skaðleysi rafrettna en sífellt fleiri vísbendingar benda til þess að fólk sé að fara illa út úr þessu.“
Könnunin hefur verið lögð fyrir nemendur um árabil að tilstuðlan Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. Ársæll segir greinilegt að rafretturnar höfði til ungmenna. „Við leggjum til að bann við rafrettum verði tekið til alvarlegar athugunar,“ segir hann.
Athugasemdir