Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sagðist vonast til þess að á fundum Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, með íslenskum ráðamönnum myndi hann gera sér grein fyrir þeim gildum sem einkenndu íslenskt þjóðfélag og nefndi frelsi, fjölbreytileika og virðingu fyrir samborgurunum. Þetta sagði Guðni þegar hann tók á móti Pence í Höfða núna fyrir skemmstu.
Pence hefur sætt gagnrýni vegna andstöðu sinnar við réttindi samkynhneigðra. Hefur hann verið andvígur því að samkynhneigðir þjóni í bandaríska hernum og kosið gegn auknum réttindum LGBT+ fólks. Hann er einnig andvígur hjónaböndum tveggja aðila af sama kyni.
Guðni benti á að Ísland mæti góð samskipti við Bandaríkin mikils. „Ég vonast líka til að þú fáir tilfinningu fyrir þeim gildum sem okkur eru kær, frelsi, fjölbreytileika, alþjóðasamstarf og virðingu hverju fyrir öðru.“
Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Guðni leggur áherslu á slík gildi gagnvart bandarískum stjórnvöldum. Þegar Donald Trump var kjörinn forseti árið 2016 óskaði Guðni honum til hamingju með þeim orðum að við styddum „jafnrétti kynjanna og höfum í hávegum jafnan rétt allra þegna óháð litarhafti eða trú.“
Pence þakkaði fyrir sig og vildi byrja á að óska, fyrirfram, Íslendingum til hamingju með 75 ára afmæli lýðveldisins. Bandaríkin væru stolt af því að hafa verið meðal fyrstu ríkja til að viðurkenna sjálfstæði Íslands og hann lýsti jafnframt ánægju með góða samvinnu þjóðanna í efnahags og varnarmálum alla tíð síðan.
Pence sagði að þjóðir á borð við Rússa og Kínverja væru í auknum mæli að færa sig upp á skaftið á norðurslóðum og samstarf Bandaríkjanna og Íslands í gegnum NATÓ og beint til að gæta hagsmuna Bandaríkjanna á svæðinu. „Við erum þakklát fyrir varnarsamstarf ríkjanna og viðveru bandaríkjahers á Íslandi og við Ísland.“
Athugasemdir