Það má segja að það séu nokkrir stórir atburðir sem hafa breytt lífi mínu. Sá stærsti er sennilega þegar ég hætti að neyta áfengis fyrir fjórum árum síðan.
Nóttina sem ég ákvað að hætta áfengisneyslu birtist móðir mín mér í svefni – eða ég var eiginlega á milli svefns og vöku þegar ég fann fyrir móður minni á rúmstokknum og heyrði hana segja: „Einar minn, þú verður að hætta að drekka. Þetta á eftir að drepa þig.“ Þegar ég rumskaði þá fann ég fyrir tárum í höndunum.
Þegar ég vaknaði morguninn eftir hringdi ég í vin minn og bað hann um að hjálpa mér að komast í einhvers konar meðferð. Í kjölfarið fór ég að fara á fundi hjá SÁÁ reglulega, fimm sinnum í viku, einn og hálfan tíma í senn.
Þetta varð til þess að síðan hef ég ekki neytt áfengis. Það má segja að ég hafi skilið við Bakkus vegna misnotkunar á honum. Ég tók hann, hnoðaði honum saman í lófa mér, fór niður á höfn og henti honum í sjóinn þar sem hann liggur í votri gröf.
Athugasemdir