Hamingjan er svo fyndið fyrirbæri. Eða nei, ég tek það til baka. Hamingjan er grafalvarlegt fyrirbæri. Veit einhver hvað þessi blessaða hamingja í alvörunni er? Er hún ástand eða tilfinning, eða er hún óljóst hugtak sem við eltumst við án þess einu sinni skilja hvað við erum á höttunum eftir?
Ég svei mér þá veit það ekki en eitt veit ég, hamingjan er allavega ekki kvíði.
Kvíði og depurð
Fyrir nokkrum árum var geðheilsa mín komin á þann stað að mér var hætt að lítast á blikuna. Eftir röð áfalla og depurðar sem virtist engan enda taka fór ég til læknis sem mælti með því að ég færi á þunglyndis- og kvíðalyf. Ég var ekkert sérstaklega spennt fyrir því að fara á geðlyf en eftir að hafa hugsað málið ákvað ég að fara að ráðum hans og prófa. Vá, hvað ég er fegin því. Eftir nokkra daga á lyfjum var ég á leiðinni í vinnuna þegar ég áttaði mig á því að það vantaði eitthvað, þessi kæfandi þrengslatilfinning í brjóstkassanum, sem hafði verið þar síðan ég man eftir mér, var farin.
Ég hafði varla áttað mig á því að þetta sem ég upplifði væri í raun og veru kvíði, því þessi tilfinning hafði alltaf verið þarna. En guð minn góður hvað það var gott að vera laus við hana. Ég gat allt í einu gert alls konar hluti sem ég hafði ekki treyst mér til áður. Ég hafði til dæmis ekki þorað að fara í sund í 15 ár sökum spéhræðslu! Eins fann ég loksins kjarkinn til að skrá mig í meistaranám sem mig hafði lengi langað að fara í. Síðan dreif ég mig líka til sálfræðings sem var afar hjálplegt, hafði reyndar bara efni á því að fara í nokkra tíma en það er önnur saga. Að fara til sálfræðings er eitthvað sem ég held að allir ættu að gera á einhverjum tímapunkti í lífinu, þó ekki nema bara til að taka stöðuna á geðheilsunni.
Þar til fyrir stuttu starfaði ég sjálfstætt sem fatahönnuður í sex ár. Ég var með eigið fatamerki og átti hlut í fatahönnunarverslun í miðbænum þar sem ég seldi vörur mínar. Ég lærði fatahönnun í einkaskóla í Mílanó á Ítalíu þar sem gífurleg pressa var á að standa sig alltaf vel og það var ekkert svigrúm fyrir mistök. Ef maður mætti of seint í próf eða yfirferð var maður felldur á staðnum. Ég var svo niðurbrotin á líkama og sál eftir þrjú ár í þessum skóla að það tók mig tvö ár að jafna mig og einu sinni þora að hanna einhverja flík.
„Þessi kæfandi þrengslatilfinning í brjóstkassanum, sem hafði verið þarna síðan ég man eftir mér, var farin“
Fyrir nokkrum árum frétti ég svo af nemanda sem hafði kastað sér út um glugga af fimmtu hæð í skólanum og fyrirfarið sér. Ég þekkti ekki þennan nemanda en þegar ég heyrði þessar fréttir fór ég að hágráta, bæði því þetta var svo sorglegt en aðallega af því þær komu mér ekki á óvart.
Að vera í ströngu háskólanámi er auðvitað kvíðavaldandi fyrir flesta en þetta var svo ýkt, nemendum var látið líða eins og þeir stæðu og féllu með hverju verkefninu og að framtíðin væri einfaldlega ónýt ef þeir gerðu mistök. Svona pressa á fólk, og hvað þá unga ómótaða einstaklinga, getur beinlínis verið hættuleg. Í mínu tilviki varð frammistaðan í skólanum beintengd við eigið sjálfsvirði.
Ég passa upp á sjálfa mig
Síðan ég losnaði að mestu leyti við þennan blessaða kvíða hefur flest í lífi mínu snúist að því að koma í veg fyrir að hann komi aftur, því þetta er án efa viðbjóðslegasta tilfinning sem ég þekki. Mér leið alltaf eins og allt væri að fara til fjandans, ég hafði ekki hugmynd um hvað þetta „allt“ var en það var allavega eitthvað mikið að, eitthvað hræðilega slæmt var yfirvofandi og það var allt mér að kenna. Af hverju það var mér að kenna vissi ég ekki en það var bara aukaatriði. Ég var slæm, heimurinn var slæmur og ég átti slæmt skilið því ég var svo misheppnuð.
Núna, ef ég passa upp á sjálfa mig og forðast áfengi (gengur misjafnlega vel), hreyfi mig reglulega og næ góðum svefni þá mætti eiginlega bara segja að ég væri í fínasta jafnvægi. Ef ég er sérstaklega dugleg að mæta í jóga þá geng ég svo langt að kalla það innri frið.
„Það besta sem ég get gert fyrir sjálfa mig og fólkið í kringum mig er að hlúa vel að geðheilsunni“
Ég veit að margir kannast við sig í því sem ég skrifa hér að ofan. Kvíði og þunglyndi eru gráir fylgifiskar þess að vera manneskja og að lifa í samfélagi sem uppfyllir ekki þær þarfir sem við höfum varðandi nánd nema að vissu eða litlu leyti. Ég er ekki sálfræðingur og ég er ekki sérfræðingur í kvíðaröskun né þunglyndi en ég þekki þetta samt af eigin raun, bæði á eigin skinni og fólki í kringum mig. Það sem ég átta mig betur og betur á með hverju árinu er að geðheilsan er svo mikilvæg að hún er eiginlega allt.
Það minnir mig alltaf á það sem er sagt í flugvélum, að setja öndunargrímuna fyrst á sjálfan sig áður en maður hjálpar öðrum með sínar. Í mínu tilviki er það allavega þannig að ef mér líður illa í sálinni þá hefur það áhrif á allt í kringum mig og þá sérstaklega samskipti mín við mitt nánasta fólk. Þar af leiðandi er það besta sem ég get gert fyrir sjálfa mig og fólkið í kringum mig að hlúa vel að geðheilsunni.
Athugasemdir