Samtök grænkera á Íslandi skora á stjórnvöld að auka vægi grænkerafæðu í skólum, opinberum stofnunum og sjúkrahúsum til að sporna gegn loftslagsbreytingum. Kemur þetta fram í tilkynningu frá samtökunum, sem berjast fyrir framgangi vegan fæðu á landinu.
Benda samtökin á að jöklar landsins muni hverfa vegna hamfarahlýnunar og að Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra hafi lagt áherslu á að grípa þurfi til aðgerða til að stöðva þá þróun. „Lítið virðist þó vera á döfinni varðandi einn mikilvægasta þáttinn í þessu samhengi, þ.e. að draga úr neyslu dýraafurða,“ segir í tilkynningunni. „Stjórnvöld hafa ekki gefið nein skýr skilaboð frá sér varðandi þennan þátt, en landbúnaður telur 13% af losun Íslands miðað við Kýótó-bókunina (en 21% af losun sem fellur undir beina ábyrgð íslenskra stjórnvalda). Um 50% af þessari losun landbúnaðar er metangaslosun vegna dýraeldis, en metangas er gróðurhúsalofttegund sem er 25 sinnum skaðlegri umhverfinu en koltvísýringur, en að sama skapi þeim eiginleikum gætt að hreinsast fljótar úr andrúmsloftinu en koltvísýringur.“
Segja samtökin að þrátt fyrir að börn hafi gripið til loftslagsverkfalla í skólum bjóðist þeim ekki að velja sér grænkerafæði í mötuneytum skólanna. „Mörg börn þurfa að fara með nesti í leik-/grunnskóla upp á hvern einasta dag þar sem skólarnir fara fram á læknisvottorð til að börnin geti fengið grænkerafæði. Það er margsannað að plöntumiðað mataræði er fullnægjandi að öllu leyti á öllum æviskeiðum og því væri rökrétt skref að bjóða upp á þann kost í öllum skólamötuneytum landsins,“ segir í tilkynningunni.
„Það reynist jafnvel erfitt að fá grænkerafæði á sjúkrahúsum“
Hvetja samtökin til þess að boðið verði upp á valkosti í skólum og sýna fram á kolefnisspor máltíða. Þetta muni spara fé, þar sem grænkerafæði sé almennt ódýrara, auk þess sem það auðveldi matreiðslu í skólum þar sem flest algengustu ofnæmi séu fyrir dýraafurðum.
„Við tölum hér sérstaklega um grænkerafæði í skólum þar sem þeir eru nú að hefjast og bæði foreldra og börn farið að lengja eftir þessum breytingum en að sjálfsögðu á þessi áskorun við um allar stofnanir ríkis og sveitarfélaga,“ segir í tilkynningunni. „Það reynist jafnvel erfitt að fá grænkerafæði á sjúkrahúsum og erum við langt á eftir þeim Evrópulöndum sem við jafnan miðum okkur við hvað þetta varðar. Við óskum eftir aðgerðum strax og megum engan tíma missa.“
Athugasemdir