Jón Kristjánsson, formaður Siðanefndar Alþingis og fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins, treysti sér ekki til að taka þátt í umfjöllun nefndarinnar um ummæli og framgöngu Klaustursþingmannanna. Hann skrifar því ekki undir álit nefndarinnar.
Ástæðan er sú að Jón taldi sig skorta „þá óhlutdrægni sem nauðsynleg er til þess að kveða upp í því dóma sem ég get varið fyrir samvisku minni“ sökum stjórnmálaþátttöku sinnar með eða á móti þeim þingmönnum sem um ræðir.
Siðanefnd Alþingiser skipuð af forsætisnefnd og ætlað hlutverk sem óháð ráðgefandi nefnd, til aðstoðar við eftirlit forsætisnefndar með framkvæmd siðareglna. Er formaður siðanefndarinnar valinn af forseta Alþingis.
Nú liggur fyrir að forsætisnefnd valdi mann til að leiða siðanefndina sem telur sig of tengdan stjórnmálamönnum til að geta fellt siðferðilega dóma á grundvelli reglnanna. Fyrir vikið er niðurstaða siðanefndar í Klaustursmálinu aðeins undirrituð af tveimur nefndarmönnum og ekki formanni.
Tók þátt í afgreiðslu á máli Þórhildar Sunnu
Jón tók sæti Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur sem vék tímabundið úr nefndinni af persónulegum ástæðum. Jón stóð að áliti nefndarinnar í maí síðastliðnum þegar nefndin komst að þeirri niðurstöðu að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata, hefði brotið gegn siðareglum alþinigsmanna með því að segja að rökstuddur grunur væri um að Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefði dregið sér fé.
Hinir nefndarmennirnir tveir, Margrét Vala Kristjánsdóttir og Róbert H. Haraldsson, komu bæði inn í nefndina í janúar síðastliðnum eftir að þau Hafsteinn Þór Hauksson og Salvör Nordal óskuðu eftir því að hætta í nefndinni. Þau skrifa bæði undir niðurstöðu nefndarinnar, sem er að þeir Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason hafi brotið gegn siðareglum Alþingis. Jón treysti sér hins vegar ekki til að taka þátt í starfi nefndarinnar og skrifar því ekki undir álitið.
Jón skilaði eftirfarandi bókun með niðurstöðu nefndarinnar:
Ég hef um tíma setið í siðanefnd Alþingis sem varamaður Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur. Ég hef unnið þar með starfsmanni nefndarinnar og sérfræðingum, sem hafa farið vandlega yfir stöðu mála og unnið þar að mínum dómi faglega og af heiðarleika. Varðandi það mál sem hér er til afgreiðslu er það þannig vaxið að vegna stjórnmálaþátttöku minnar á liðnum tíma með eða á móti þeim aðilum sem þar er fjallað um er það mín tilfinning að mig skorti þá óhlutdrægni sem nauðsynleg er til þess að kveða upp í því dóma sem ég get varið fyrir samvisku minni. Ég treysti hins vegar öðrum nefndarmönnum vel til þess verks. Ég hef því ekki tekið þátt í umfjöllun nefndarinnar um þetta mál og skrifa því ekki undir efnislegar tillögur hennar, en vil skýra afstöðu mína með þessari bókun.
Var aldrei samtíða Klausturþingmönnum á Alþingi
Jón Kristjánsson sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn á árunum 1984 til 2007 og var ráðherra á árunum 2001 til 2007. Hann var því aldrei samtíða neinum Klaustursþingmannanna á þingi. Gunnar Bragi Sveinsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson voru báðir kjörnir á þing árið 2009 en hinir Klausturþingmennirnir fjórir, Bergþór Ólason, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson og Anna Kolbrún Árnadóttir voru öll fyrst kosin á þing í síðustu kosningum, árið 2017.
„Ég hef því ekki tekið þátt í umfjöllun nefndarinnar um þetta mál“
Gera má ráð fyrir að Jón sé að vísa til að minnsta kosti Gunnars Braga þegar hann talar um stjórnmálaþáttöku sína með eða á móti þingmönnunum sem um ræðir. Gunnar Bragi og Jón voru samtíða í Framsóknarflokknum en Gunnar Bragi var formaður Félags ungra Framsóknarmanna í Skagafirði og varaformaður kjördæmissambands flokksins í Norðurlandskjördæmi vestra á sínum tíma. Þá sat hann í sveitarstjórn Skagafjarðar fyrir Framsóknarflokkinn á árunum 2002 til 2010. Auk þess var Gunnar Bragi aðstoðarmaður Páls Péturssonar félagsmálaráðherra Framsóknarflokksins á árunum 1997 til 1999. Þeir Jón hafa því væntanlega starfað saman á vettvangi Framsóknarflokksins á þessum árum.
Hefði mátt vera tengslin ljós fyrirfram
Varðandi aðra Klausturþingmenn þá er vandséð að stjórnmálaþátttaka Jóns hafi verið „með eða á móti“ þeim þingmönnum. Sigmundur Davíð var kjörinn formaður Framsóknarflokksins í janúar 2009, um það bil einu og hálfu ári eftir að Jón hætti á þingi. Fyrir þann tíma hafði Sigmundur að eigin sögn ekki verið skráður í Framsóknarflokkinn. Anna Kolbrún var félagi í Framsóknarflokknum áður en hún gekk til liðs við Miðflokkinn en ekki kjörinn fulltrúi á vegum flokksins. Þá var Bergþór Ólason aðstoðarmaður Sturlu Böðvarssonar, samgönguráðherra Sjálfstæðisflokksins á árunum 2003 til 2006, í samstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Stjórnmálaþátttaka þeirra Ólafs og Karls Gauta var takmörkuð fyrir þann tíma.
Jón mátti því vita áður en nefndin tók Klausturmálið til afgreiðslu hver hugsanleg tengsl hans við þingmennina sex væru. Stundin reyndi að hafa samband við Jón, til að spyrja hann hví hann hefði ekki sagt sig frá setu í nefndinni í ljós þess sem hann setur fram í bókinni. Ekki náðist hins vegar í Jón.
Athugasemdir