Hér á landi tíðkast það ekki að spilling birtist í því að sterkir sérhagsmunaaðilar nái tangarhaldi á stjórnvöldum og hafi áhrif á þau með viðbrögðum sínum við einstökum ákvörðunum.
Gott fólk, mig langar að taka eitt skýrt og greinilega fram: Ég samdi ekki setninguna hér að ofan. Ég skrifaði hana samt af því mig langaði að prófa að skrifa hana eins og hún væri mín skoðun. Mig langaði líklega að gá hvort það væri hægt að skrifa þessa setningu og finnast hún vera bara allt í lagi, bæði marktæk og sönn.
En það var ekki hægt. Ég var varla hálfnaður með setninguna þegar ég var byrjaður að mótmæla henni hástöfum í huganum.
Ha? Birtist spilling á Íslandi ekki í því að „sterkir sérhagsmunaaðilar nái tangarhaldi á stjórnvöldum“? Nú já? Hafa hundar sem sagt ekki fjóra fætur? Og var Neil Armstrong ekki fyrsti maðurinn til að ganga á tunglinu? Hvaða þvæla er þetta? Er þetta einhver öfugmælavísa? Eitthvert grín?
Er þetta grín?
Svo á ekki að vera. Þetta er hluti af umsögn sem Heiðrún Björk Gísladóttir, verkefnisstjóri hjá Samtökum atvinnulífsins, tók saman um nýtt frumvarp sem kynnt hefur verið hér á landi að tilmælum alþjóðlegs hóps ríkja sem vinna gegn spillingu, GRECO.
„Birtist spilling á Íslandi ekki í því að „sterkir sérhagsmunaaðilar nái tangarhaldi á stjórnvöldum“? Nú já? Hafa hundar sem sagt ekki fjóra fætur?“
Tillögur GRECO, sem búið er að flétta inn í frumvarpsdrög, ganga aðallega út á að tryggja að þeir sem hafa atvinnu af að tala máli hagsmunasamtaka og -aðila séu skráðir sem slíkir, starfsemi þeirra séu uppi á borðinu og að embættismenn og stjórnmálamenn megi ekki ganga beint úr starfi í almannaþágu í starf fyrir hagsmunaaðila.
Allar þessar tillögur virðast bæði sjálfsagðar og fullkomlega meinlausar.
En nei. Samtök atvinnulífsins reynast sem sagt vera alveg á móti þeim í sinni umsögn. Af því – eins og Heiðrún Björk skrifar – að á Íslandi hafa sterkir hagsmunaaðilar ekki náð tangarhaldi á stjórnvöldum.
Heiðarlegar manneskjur
Það sem mér finnst merkilegt við þessa umsögn SA og varð til þess að ég varð að prófa að skrifa þessa setningu eins og hún væri mín eigin, og ég meinti þetta, það er sú staðreynd hve ótrúlegt bull þessi setning er.
Og að ég segi ekki óforskömmuð.
Nú þykist ég alveg viss um að bæði Heiðrún Björk og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, séu hinar vænstu manneskjur prívat og persónulega, réttsýnar og í alla staði vel af guði gerðar, og innblási börnunum sínum, sem ég veit vissulega ekki hvort þau eiga, bæði sannsögli og heiðarleika.
En einmitt þess vegna er svo skrýtið að samtökin sem þau vinna fyrir skuli sjá sóma sinn í að setja blákalt fram annað eins bull.
Köllum það annars bara lygi.
Hverjir hafa tangarhald á stjórnvöldum?
Við vitum öll að hér á landi hafa sterkir sérhagsmunaaðilar náð tangarhaldi á stjórnvöldum og hafa áhrif á þau með viðbrögðum sínum við einstökum ákvörðunum, líkt og talað er um í úttektarskýrslu GRECO.
Svo skemmtilega vill til að meðal þessara sterku sérhagsmunaaðila eru einmitt Samtök atvinnulífsins.
Sægreifarnir, ríka fólkið, já, svo sannarlega hafa þessir hópar náð tangarhaldi á stjórnvöldum. Þeir halda jafnvel úti heilu fjölmiðlunum, heilu stjórnmálaflokkunum, heilu kynningarfyrirtækjunum, heilu lögfræðistofunum til að viðhalda þessu tangarhaldi.
Þetta vitum við alveg. Þetta veit Heiðrún Björk, sem skrifar umsögn SA, líka.
Af hverju skrifar hún þetta?
Svo af hverju skrifar hún þetta þvaður? Og hverju eiga nú allir að látast trúa því að þetta sé sönn og heiðarleg skoðun Samtaka atvinnulífsins, en ekki bara prat, eintómt og innihaldslaust prat, til að kasta málinu á dreif, reyna að koma í veg fyrir sjálfsagðar reglur um spillingu sem SA óttast að geti sett svolítinn stein í götu þeirra sérhagsmunaaðila sem eru samtökin sjálf?
Af hverju segja samtökin ekki bara: Nei, við viljum halda tangarhaldi okkar á stjórnmála- og embættismönnum, þess vegna viljum við engar reglur gegn spillingu?
Það væri heiðarlegt. Þessi umsögn SA er bara lítilsvirðandi þvaður og lygar.
Athugasemdir