Lögreglumaður hrópaði orðin „go home“ að hælisleitendum sem mótmæltu bágum kjörum á Austurvelli í vor. Þetta má sjá á myndbandsupptöku frá 11. mars sem Stundin birtir hér neðst í fréttinni.
Maðurinn sem lét orðin falla lýsti furðu sinni þegar blaðamaður spurði hann um málið og sýndi honum myndbandið.
„Ég er að reyna að átta mig á samhenginu, og átta mig á hvort ég gæti verið að segja eitthvað annað sem hljómar eins. En ég get það ekki,“ sagði hann fyrst. „Þessi tvö orð lýsa nefnilega alls ekki skoðun minni á hælisleitendum og innflytjendamálum.“
Skömmu síðar, eftir að hafa horft aftur á upptökuna, sagðist hann átta sig á samhengi ummælanna. „Þarna var ég í basli með að fá mótmælendurna til að halda sig á grasinu. „You just need to go somewhere else,“ segi ég þarna rétt á undan, sem í þessu samhengi er ekki á stéttinni. Ég er ekki að segja honum að fara til síns heimalands.“
Hann segist þó skilja hvernig það komi út að lögreglumaður hrópi orðin „go home“ að innflytjendum.
Mótmælin þann 11. mars vöktu mikla athygli, en þar beitti lögregla piparúða í fyrsta skipti síðan í búsáhaldabyltingunni 2009. Sættu aðgerðir lögreglu nokkurri gagnrýni og voru lögreglustjóri og yfirlögregluþjónn boðuð á fund allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis vegna málsins.
Þá kvörtuðu Solaris, hjálparsamtök fyrir hælisleitendur og flóttafólk, til nefndar um eftirlit með lögreglu vegna meints harðræðis gegn mótmælendum.
„Ég hef ekki heyrt eitt síðan erindi var sent lögreglustjóranum í byrjun maí,“ segir Sema Erla Serdar, formaður Solaris, í samtali við Stundina. „Nefndin tók ekki beina afstöðu til erindisins heldur sendi það lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu til meðferðar. Samkvæmt lögum ber lögreglustjóranum þar með að taka afstöðu til kvörtunarinnar og skila nefndinni sem síðan getur tekið ákvörðun um að hefja meðferð máls eða ekki.“
Í kjölfar mótmælanna fór af stað bylgja hatursorðræðu á samfélagsmiðlum og athugasemdakerfum fjölmiðla þar sem hælisleitendur voru úthrópaðir og hvatt til ofbeldis gegn þeim. Gagnrýndu þingmenn Miðflokksins og Sjálfstæðisflokksins mótmælendur auk þess sem Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari lýsti vanþóknun sinni á Facebook.
Athugasemdir