Ríkisskattstjóri krafði Björn Inga Hrafnsson ritstjóra Viljans um tæpar 8 milljónir króna samkvæmt gerðarbók fjárnáms hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu þann 12. júní síðastliðinn. Gert var fjárnám í fjórum eignum Björns Inga að Másstöðum í Hvalfirði.
Nauðungaruppboð á eignunum fjórum hefur verið auglýst 22. ágúst hjá sýslumannsembættinu á Vesturlandi, en Viðskiptablaðið greindi fyrst frá. Gerðarbeiðendur eru auk sýslumannsembættisins, Ríkisskattstjóri, Hvalfjarðarsveit og Vátryggingafélag Íslands.
Kröfurnar nema alls 40 milljónum króna, um tíu milljónir króna í hverja af eignum Björns Inga. Foreldrar hans seldu honum Másstaði 2, auk fasteigna við Másstaði 3, 4 og 5 í apríl 2015. Umsamið kaupverð voru 95,2 milljónir króna og greiddist það með yfirtöku áhvílandi skulda, greiðslum og búseturétti foreldranna. Greiða foreldrarnir 200 þúsund krónur í mánaðarlega leigu sem ráðstafast til greiðslu hluta kaupverðsins sem nemur um 25 milljónum króna.
Skattrannsókn vegna gruns um meiri háttar skattalagabrot Björns Inga lauk í febrúar og taldi skattrannsóknarstjóri ekki tilefni til að aðhafast frekar í málinu. Lögmaður Björns Inga sagði liggja í augum uppi að farið yrði í mál við ríkið og bóta krafist.
Athugasemdir