Tveir Sjálfstæðismenn sögðu „ákveðna fjölmiðla með hrakmáluga í broddi fylkingar“ hafa staðið að pólitískri aðför að mannorði Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í grein í Morgunblaðinu í gær. Ásmundur segist óendanlega þakklátur mönnunum fyrir „ómetanlegan stuðning og uppörfun“.
Greinina skrifuðu Viðar Guðjohnsen og Ólafur Hannesson og ber hún titilinn „Gjör rétt, þol ei órétt“. Í henni skrifa þeir að settar hafi verið fram tilhæfulausar ásakanir, dylgjur og lygar í umfjöllun fjölmiðla um aksturskostnað Ásmundar. „Allir sem hafa einhverja sómakennd í brjósti sér hljóta að mótmæla því sem þingmaðurinn hefur þurft að þola.“
Í greininni segja þeir að fólk ætti að sjá að sér og biðja Ásmund afsökunar. „Því miður eru slík mannorðsmorð ekki einsdæmi og ástæðan er einföld,“ skrifa Viðar og Ólafur. „Stjórnmálamenn með sjálfstæðan vilja eru orðnir að pólitískum skotspónum umrótsafla sem veigra sér ekki við að ala á höfuðsyndum Biblíunnar með lygum, útúrsnúning og dylgjum í hugmyndafræðilegu stríði sínu.“
Ásmundur fékk 4,6 milljóna króna aksturskostnað endurgreiddan frá Alþingi vegna 48 þúsund kílómetra aksturs á eigin bíl þrátt fyrir að reglur um þingfararkostnað kveði á um að þingmenn sem aka meira en 15 þúsund kílómetra á ári skuli notast við bílaleigubíl og siðareglur leggi þá skyldu á herðar þingmönnum að sjá til þess að endurgreiðsla fyrir útgjöld sé „í fullkomnu samræmi“ við reglur um þingfararkostnað. Sjálfur hefur Ásmundur viðurkennt að hluti af endurgreiðslunum hafi „orkað tvímælis“ og endurgreitt skrifstofu Alþingis 178 þúsund krónur sem hann fékk vegna ferða um kjördæmi sitt með tökufólki frá sjónvarpsstöðinni ÍNN.
Í færslu á Facebook í gær sagði Ásmundur að greinin hefði snert við honum og konu hans. „Greinin kom okkur skemmtilega á óvart en hugarfar greinahöfunda kemur mér ekki á óvart,“ skrifaði hann.
Athugasemdir