„Fjölskyldan var á leið út úr versluninni þegar kona veittist að þeim, fyrst með ókvæðisorðum en svo bætti hún í og hrækti á þau og gerði tilraunir til að rífa í hijab kvennanna, sem er þekkt aðferð hatursglæpamanna til að niðurlægja múslima.“
Þannig lýsir Þórunn Ólafsdóttir, sem hefur starfað með flóttafólki á Íslandi og í Grikklandi, atvikum sem áttu sér stað við verslunarkjarna í Breiðholti í gær.
Miðlæg rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur nú til skoðunar hvort framinn hafi verið hatursglæpur þegar ráðist var á þrjá innflytjendur. Maður Þórunnar, Kinan Kadoni, er af sýrlenskum uppruna og leituðu þolendurnir til hans eftir að hafa orðið fyrir árásinni.
Þórunn tjáir sig um málið á Facebook og segir frá því að fólkið hafi í fyrstu sjálft óskað aðstoðar lögreglu án árangurs. Lögregla hafi ekki mætt á svæðið fyrr en eftir að hún hringdi.
„Mér er enn algjörlega fyrirmunað að skilja hvers vegna lögreglan sá ekki ástæðu til að skipta sér af á meðan árásin stóð yfir. Ég var vissulega ekki á staðnum sjálf og því ekki með fullkomna yfirsýn yfir tímalínuna, en taldi lögreglan í alvöru ekki mikilvægt að tryggja öryggi fjölskyldunnar við þessar aðstæður?“ skrifar Þórunn. „Þótti ekki ástæða til að kanna málið og gera tilraun til að hafa uppi á árásarmanneskjunni? Voru engin vitni á vettvangi sem talið var mikilvægt að ná tali af? Hvað með sönnunargögn eins og upptökur úr öryggismyndavélum verslunarinnar?“
Þórunn bendir á að atburðurinn hafi átt sér stað um hábjartan dag í landi sem kennir sig við öryggi og friðsæld. „Ofbeldið sem árásarmanneskjan ákvað að beita er af grafalvarlegum toga og á hennar eigin ábyrgð, en því miður ekki hægt að líta á það sem einangrað tilvik. Samhengið er miklu, miklu stærra. Hatursorðræðu, rasisma og íslamófóbíu hefur vaxið fiskur um hrygg í samfélaginu okkar undanfarin misseri. Sú ógnvænlega þróun á sér margar skýringar og fjölmargir sem bera þar mikla ábyrgð - stjórnmálafólk, fjölmiðlar og fólkið sem veitir þessum hugmyndum brautargengi og fjöldinn sem lætur þær óáreittar. Hvernig samfélag viljum við eiginlega vera?“
Athugasemdir