Sigurður Gísli Björnsson, athafnamaður og fyrrverandi eigandi fisksölufyrirtækisins Sæmarks, seldi einbýlishús sitt á Arnarnesi til fyrirtækisins Hótel Valhallar ehf. rúmlega einum mánuði áður en eignir hans voru kyrrsettar vegna rannsóknar héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra á meintum mörg hundruð milljóna króna skattalagabrotum hans. Söluverð hússins var 185 milljónir króna. Þetta kemur fram í kaupsamningnum að húsinu og í kyrrsetningargerðinni frá því í lok árs 2017.
Eigandi félagsins Hótel Valhallar ehf. er athafnamaðurinn Jón Ragnarsson, sem meðal annars hefur verið í kastljósi fjölmiðla á liðnum árum vegna deilna við rekstraraðila veitingastaðarins Caruso en Jón er eigandi húsnæðisins. Hótel Valhöll er í dag skráður eigandi hússins á Arnarnesinu en kyrrsetningargerðin hvílir enn þá á því.
Hætta á eignaundanskotum
Í úrskurði í máli Sigurðar Gísla, þar sem tekist er á um kyrrsetningu eigna hans, kemur fram að hætta hafi verið talin á því að Sigurður Gísli kæmi fjármunum undan ef eignir hans yrðu ekki kyrrsettar: „Umtalsverðir fjármunir hafi verið millifærðir af bankareikningi sóknaraðila skömmu fyrir haldlagninguna og því sé ljóst að hætta hafi verið á að fjármunir yrðu ekki til staðar þegar rannsókn málsins væri lokið nema gripið væri til tryggingarráðstafana. Byggði það mat meðal annars á tengslum sóknaraðila við erlend félög og eðli fjármuna, en auðvelt sé að færa þá á milli margra staða á stuttum tíma sé vilji til þess.“
Athugasemdir