Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu stóð ranglega í þeirri trú um árabil að embættið væri óbundið af stjórnsýslulögum við framkvæmd sáttameðferðar. Óljóst er hvaða áhrif þetta hafði á málsmeðferð hjá embættinu, verklag sáttamanna og stöðu þeirra foreldra sem boðaðir voru á sáttafundi hjá sýslumanni.
Árið 2012 var fest í lög að foreldrar væru skyldugir samkvæmt barnalögum til að leita sátta áður en krafist væri úrskurðar eða höfðuð mál um forsjá, lögheimili, umgengni, dagsektir eða aðför. Þannig er sáttameðferðin lögbundið ferli þar sem sýslumaður gegnir alla jafna lykilhlutverki. Í sömu lögum, 71. gr., kemur skýrt fram að „að því leyti sem ekki er kveðið á um annað í lögum þessum fer um meðferð máls samkvæmt stjórnsýslulögum“.
Kvartað til umboðsmanns
Stundin greindi frá því síðasta sumar að þrátt fyrir ofangreind lagafyrirmæli teldi sýslumaður sig ekki þurfa að fylgja stjórnsýslulögum né upplýsingalögum við framkvæmd sáttameðferðar. Embættið lét í ljós þá afstöðu þegar kona kvartaði til umboðsmanns Alþingis yfir því að embættið hefði synjað henni um afrit af tölvupóstum sem fóru á milli sáttamanns og barnsföður hennar.
Umboðsmaður óskaði eftir upplýsingum um lagagrundvöll synjunarinnar. Í svari sýslumanns kom fram að embættið teldi að „sáttameðferð samkvæmt framangreindu lagaákvæði falli hvorki undir stjórnsýslulög nr. 37/1993 né upplýsingalög nr. 140/2012 og því verði ákvæðum þessara laga ekki beitt um aðgang að gögnum í því tilviki sem kvörtunin lýtur að“. Í kjölfarið kallaði umboðsmaður eftir afstöðu dómsmálaráðuneytisins og spurði hvort ráðuneytið hygðist „grípa til einhverra viðbragða gagnvart sýslumanni“.
Ráðuneytið leiðréttir sýslumann
Stundin hefur nú undir höndum úrskurð sem dómsmálaráðuneytið kvað upp í málinu síðasta haust. Þar staðfestir ráðuneytið að sýslumaður hafi verið í lögvillu um gildissvið stjórnsýslulaga og lagaramma sáttameðferðar.
Athugasemdir