Sæl Katrín.
Ég heiti Jakobína Davíðsdóttir og langar að koma á framfæri því aðgerðarleysi íslenskra stjórnvalda sem felst í því að mótmæla ekki þeirri ákvörðun bresku ríkisstjórnarinnar að leggja fram á sínu þingi framsal á Julian Assange til Bandaríkjanna.
Ég starfaði sem blaðamaður um nokkurra ára skeið og fékk blaðamannaverðlaun ásamt fleiri kollegum 2007 fyrir rannsóknarblaðamennsku vegna umfjöllunar okkar um Breiðuvíkurmálið en ég er ekki að segja þér það til að státa mig af því. Ég er að segja þér það vegna þess hve mikilvæg rannsóknarblaðamennska er. Án hennar getur grasserað spilling, ofbeldi, brot á mannréttindum og þöggun og svelti á réttlæti og mannúð.
Ég var ásamt Kristni Hrafnssyni í Madrid í apríl til að aðstoða hann við að túlka það sem fjárkúgarar, svokallaðir blaðamenn frá Alicante sem vildu selja Wikileaks fyrir 3 milljón evra, skjöl, myndbönd og trúnaðarupplýsingar úr sendiráði Ekvador í London. Í kjölfar þess ákvað Kristinn í samráði við Baltasar Garzon, virtan lögmann á Spáni sem berst fyrir mannréttindum og er lögmaður Assange, að kæra þessa fjárkúgara og þá fór hjólið að snúast og Ekvador ákvað að afhenda Assange til breskra stjórnvalda til að þurfa ekki að viðurkenna mannréttindarbrot sitt gagnvart Assange og hversu klúðurslega þeir stóðu að öryggismálum sínum innan sendiráðsins.
Ég veit að ég þarf ekki að tíunda það sem gerðist við þig, þú ert örugglega vel upplýst um gang mála og þær afleiðingar sem þau höfðu.
En ég get ekki orða bundist að tjá þér vonbrigði mín vegna afstöðuleysis íslenskra stjórnvalda og geta ekki haft bein í nefinu til að senda út opinbera yfirlýsingu um það að Ísland styðji ekki ákvörðun Breta um að framselja Assange. Erum við ekki að tala um mannréttindi? Viljum við ekki heyra sannleikann, þó sár sé?
Þegar við fjölluðum um Breiðavíkurmálið, fór af stað rannsókn á því sem hugsanlega hafi gerst þar og á öðrum unglinga -og betrunarheimilum og þá kom í ljós andstyggileg staðreynd, sú staðreynd að við fórum illa með börn og unglinga, einstaklinga sem voru framtíð lýðræðisríkisins, ríkis sem var kúguð þjóð áður en við fengum sjálfstæði frá Dönum, rétt eins og að þessi kúgun væri lærð hegðun og ætti að beita henni á minnimáttar.
Ég fór á Austurvöll 17. júní ásamt spænskum vini mínum með áletraðan borða (lak sem ég fórnaði fyrir baráttunni um mannréttindi) þar sem stóð “Assange, we support you” og stóðum á móti stúkunni þar sem allt ráðafólk landsins sat.
Tilgangur okkar var að sýna ykkur þessa yfirlýsingu með von um að fá kannski einhverja af ráðamönnum landsins til að hugsa aðeins um þetta andstyggilega mannréttindabrot og kannski gera eitthvað í því. Er það ekki skylda okkar að berjast fyrir minnimáttar, ofsóttum þjóðarbrotum, gegn fordómum og óréttlæti?
„Segir Ísland láta til sín taka í mannréttindamálum svo eftir sé tekið.“
Þetta var yfirlýsing þín til mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna. Eru þetta bara orðin tóm? Af því þetta hljómar svo vel og þú kemur vel út og færð klapp á bakið?
Stöndum við það sem við segjum, í orði og á borði!
Asskotinn hafi það!
Athugasemdir