„Ég held að við verðum að gera eitthvað hérna heima á Íslandi,“ segir Nils Johann Viberg, einn af vegfarendunum í miðborg Reykjavíkur sem Stundin spurði út í hugmyndir um álagningu nýs sykurskatts og lækkunar á sköttum á grænmeti.
Hækkun álagningar á sykraða gosdrykki og sælgæti er á meðal þess sem lagt er til í nýrri aðgerðaáætlun Landlæknisembættisins til að draga úr sykurneyslu Íslendinga. Lagt er til að hækkunin nemi um 20 prósent og um leið verði álögur á hollustuvörur, líkt og grænmeti, lækkaðar.
Á heimasíðu Landlæknis kemur fram að „vaxandi vísindalegur grunnur er fyrir því að vel skipulagðir skattar á matvæli, ásamt fleiri aðgerðum, getur verið áhrifarík leið til að bæta neysluvenjur“.
Aðgerðaráætlunin er í fjórtán liðum og er sykurskattur einn liðurinn. Meðal hinna aðgerðanna má nefna hollara matarframboð í íþróttamannvirkjum og hvatning til matvælaframleiðanda um framleiðslu á hollari matvörum. Aðgerðaráætlunin var unnin fyrir heilbrigðisráðherra og kynnt í ríkisstjórn á föstudag.
Hugmyndin fer misvel í fólk sem Stundin spurði í miðborg Reykjavíkur í dag. Sumir fagna áformunum sem mikilvægri lýðheilsuaðgerð meðan aðrir vara við neyslustýringu. Þá hafa Samtök um líkamsvirðingu sakað heilbrigðisráðherra um fitufordóma.
Hafþór Pálsson er jákvæður gagnvart sykurskatti, en er á móti því að sykurlausar vörur og sætuefni verði skattlagðar með sama hætti og þær sykruðu. „Þetta er bara bull. Landlæknir sagði það í útvarpinu í morgun að það væri ekki búið að rannsaka sætuefni nógu mikið. Ég held að það sé ekki rétt hjá henni, ég held að sætuefni séu mest rannsakaða sem til er. Þannig að ég held að það sé bara rangt hjá Landlækni.“
Aðspurður hvort sama ætti við um aðra neyslustýringu, til dæmis skattlagningu á kjöti í þágu umhverfisverndar, sem þó er ekki hluti af tillögum Landlæknis, segist hann alfarið vera á móti því. „Kjöt er gott og það á að borða sem mest af kjöti en minna af sykri.“ Alla jafna telur hann jákvætt að ríkið hafi afskipti af neyslu almennings. „Það er allt í lagi að stýra neyslu almennings með sköttum ég er alveg sammála því en ekki heimskulegum sköttum,“ segir Hafþór.
Sigurður Hróar segist ekki hafa neinar skoðanir á fyrirhuguðum sykurskatti enda hafi hann ekki vitað af honum. Honum líst ágætlega á sykurskatt en er mótfallinn kjötskatti. „Nei ég er kjötæta,“ segir hann. Sigurði finnast ríkisafskipti af neyslu fólks „hið besta mál“.
„Ég held að það væri ekki svo slæm hugmynd,“ segir Lemke Meijer aðspurð um sykurskattinn. Hún telur það geti verið hjálplegt og skapað meðvitund um lýðheilsu og jafnvel hvatt fólk til að velja hollari kosti.
Hlutverk stjórnvalda er að mati Lemke að stuðla að vitundarvakningu meðal almennings um mat, hvaðan hann kemur og hvernig áhrif hann hefur á líkamann. Skattlagning er ein af þeim leiðum. „Ég held að við séum að miklu leyti búin að tapa tengingu við hvaðan líf kemur og hvað við erum að borða. Ég held þess vegna að það sé vissulega hlutverk fyrir stjórnvöld sem felist í því að vekja almenning til vitundar og endurskapa þessa tengingu. Peningur er oft hvati fyrir fólk að breyta hegðun sinni og breytt hegðun leiðir til breytts skilnings á umhverfinu, þannig að þess vegna gæti skattur verið þáttur í því.“
Nils Johann Viberg segist jákvæður gagnvart sykurskatti. Skatturinn hafi virkað vel í löndum á borð við Danmörku og Noreg. „Ég held að við verðum að gera eitthvað hérna heima á Íslandi,“ segir hann.
Hins vegar er hann andvígur öðrum möguleikum, sem ekki hafa verið nefndir, eins og kjötskatti. „Kjöt er ekki beint óhollt. En við verðum að finna hvað er betra að borða hérna heima á Íslandi,“ segir Nils aðspurður um hvort hið sama eigi við um kjötskatt. Hann segist hafa hugsað um kjöt þegar kemur að hamfarahlýnun en segir kjöt á Íslandi ekki það sama og í löndum á borð við Bandaríkin. Engu að síður þurfi að rannsaka vægi kjötneyslu á Íslandi.
Nils segir erfitt að svara því hvort stjórnvöld eigi að hafa afskipti af neyslu almennings. „Við erum að gera það, við erum að styðja bændurna okkar með skattpeningum svo þetta kerfi er ekki beint hreint eins og það er núna. Stundum er það kostur en ekki í öllum tilvikum.“
Að mati Lilju Sólrúnar er í lagi að setja á sykurskatt. „Mér finnst bara allt í lagi að setja sykurskatt því það minnkar nammiát. En samt, kannski hefur það engin áhrif á þetta nema að maður borgar meira fyrir vöruna.“
„Á fólkið sjálft ekki að hafa álit á því hvað það kaupir og borðar?“
Almennt telur hún að ríkið ætti að hafa sem minnst afskipti af neyslu almennings. „Á fólkið sjálft ekki að hafa álit á því hvað það kaupir og borðar? Ekki ríkið.“
Hylur Hörður Þórisson er ekki spenntur fyrir sykurskattinum. „Það er lagður skattur á vatnsdrykki líka sem innihalda ekki sykur, eins og Kristal en af því að hann er flokkaður sem gosdrykkur fær hann hækkunina líka. Svo fer þetta allt í verðlagið, allt hækkar.“
Aðspurður hvaða skoðun hann hefði á kjötskatti segir hann það sama eigi við um sykurskattinn og hugsanlegan kjötskatt. „Hann er fáránlegur. Verðlagshækkanir eru hættulegar að mínu mati,“ segir Hylur. Honum finnst sömuleiðis að ríkið eigi ekki að skipta sér að heilsu annarra.
„Prívat og persónulega finnst mér þetta vera algjört rugl,“ segir Hrafn Kahn, sem starfar við dreifingu á vörum Nóa Siríus. Aðspurður hvers vegna segir hann að manneskjan þurfi sykur. „Maður þarf sykur í líkamann. Það á ekki að þurfa borga svona háan skatt á sykri, þess vegna finnst mér þetta svona fáránlegt.“
Athugasemdir