Það eru mörg teikn á lofti um að nýtt hrun sé að læðast að okkur, eins og þeim er tamt. Þeim sem fyrst verða látnir blæða í hinu alræmda aðhaldi ríkisvaldsins eru auðvitað þeir sem síst geta borið hönd yfir höfuð sér. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er enn ein aðförin gagnvart þeim sem varla geta lifað af í landi bölvaðrar þenslunnar sem veldur þannig dýrtíð að þeir sem rétt hafa rétt úr kútnum eftir stóra hrun geta varla framfleytt sér, hvað þá þeir efnaminnstu.
Það er byrjað að draga saman seglin og aðhaldið er hafið, án mikillar umræðu og engu alvöru andófi. Það er eins og mótmæli séu ekki lengur nægileg til að fá valdaklíkurnar til að hlusta. Enda er það svo að þeir sem nú hafa yfirtekið þingið í frekjukarlakasti, eru auðvitað ekki að því vegna þess að illa er farið með smælingjana, nei, þeir eru í raun og sann að mótmæla sinni eigin hentistefnu sem þeir hinir sömu tóku þátt í að raungera í valdatíð sinni.
Það er ekkert málþóf til að hindra að fjármunir sem lengi hefur verið beðið eftir til aldraðra og öryrkja verði dregnir til baka á meðan ríkissjóði blæðir vegna ruglsins í kringum lággjaldaflugfélagið sem dreymdi um að borga fólki fyrir að fljúga með sér.
„Ég get séð fyrir mér þann dag sem við borgum þér fyrir að fljúga,“ segir Skúli Mogensen, forstjóri og stofnandi Wow air, í viðtali við bandarísku viðskiptasíðuna Business Insider.
Það var sem sagt aldrei beint val hjá okkur farfuglunum um að fá borgað fyrir að fljúga í sinni flugskömm og einhver mun þurfa að borga ISAVIA-reikninginn fyrirséða og það verður ekki Skúli, heldur skattborgarar, sem endar sem aðhald og minni fjármunir í innviðauppbyggingu. En hei, Wow air var óskabarn, vegna þess að fólk gat haldið á vit verslunarhúsa og vertshúsa í fjarlægum löndum fyrir slikk og gleymt öllu sem það lærði í hruninu.
„Einhver mun þurfa að borga ISAVIA-reikninginn fyrirséða og það verður ekki Skúli, heldur skattborgarar“
Það eru svo sem ekki bara blikur á lofti hér, þó svo að það sé hægt að treysta á regluleg hrun á Íslandi eins og þá staðreynd að dauðinn vitjar alltaf allra á endanum.
Það eru blikkandi rauð ljós alls staðar, þó svo að braskið með framtíðina sé tæknilega séð mun fágaðra með alsjáandi auga gervigreindar að taka ákvarðanir fyrir braskarana sína. Brexit, viðskiptastríð, uppskerubrestur þar sem matarkistur heimsins eru óðum að tæmast. Það eru svo auðvitað öfgar í veðurfari, en það er ok, við fengum loksins fádæma gott sumar, þökk sé hlýnun jarðar. Eina sem skyggir á er andskotans síhungraða lúsmýið.
Hrun eru kölluð hrun vegna þess að eitthvað gerist skyndilega, eins konar ófyrirséður skýjastrókur sem kemur öllu úr lagi og tortímir öllu sem á vegi þess verður á meðan allt í kring er ósnortið. Því er það svo að þeir sem verða ekki í vegi þess eru ósnortnir að hamförum hinna. Þeir geta hvort eð er byggt sér neyðarrými handan við veruleika hinna.
Þetta hrun sem er að koma núna er meira eins og tsunami. Það varð jarðskjálfti neðansjávar sem enginn sá og flóðbylgjan er enn að ná landi, hægt og bítandi étur hún sig inn í það sem eftir er af mergnum í heilbrigðiskerfinu sem var nú nógu veikt fyrir.
Venjulega væri maður fremur þakklátur fyrir að verkstýra landsins kæmi frá félagshyggjuflokki, flokki sem eitt sinn var skilgreindur sem sósíalistaflokkur. Ég veit eiginlega ekki hvað þessi flokkur er lengur, kannski hafði Hannes Hólmsteinn rétt fyrir sér þegar hann skilgreindi VG sem vatnsmelónu, þó hafði hann rangt fyrir sér að halda því fram að flokkurinn væri rauður að innan, hans innviðir eru fölbleikir með bitrum fræjum, huldir örþunnum umhverfisverndargrænum hjúp.
„Það er ekki nóg að skipta bara um stjórnmálaflokka eða stjórnmálamenn, það er nauðsyn að fara að huga að nýju kerfi, nýjum samfélagssáttmála“
Ég bind svo sem engar vonir við að Katrín Jakobsdóttir standi og falli með þeim hugsjónum sem flokkurinn hennar var skapaður utan um. En það má treysta því að hún standi og falli með því að halda embætti sínu, svo mikið er víst. Það hefur hún ítrekað sýnt fram á og stendur sig líka svona ljómandi vel í því hlutverki. Katrín er með sanni ekki neitt gluggaskraut, hún er valdapólitíkus af gamla skólanum sem lítur á völd sem æðsta tilgang stjórnmálamannsins. Þess vegna er ekki hægt að treysta á hana og ráðvillta framsóknarmennina í flokknum hennar til að fara í setuverkfall í ríkisstjórninni til að tryggja að þeim sem alltaf er látið blæða verði ekki fórnað fyrir blóðsugurnar sem hún hefur raðað í kringum sig í svona líka þægilegri ríkisstjórn engra verka. Nú, til að gæta sanngirni, ef verkin eru einhver, þá eru þau svo gerilsneydd allri hugsjón og það rækilega útvötnuð að það myndi ekki einu sinni duga í smáskammtalækningar.
Það er nýtt hrun að flæða að okkur og kannski, bara kannski, er kominn tími á að fólkið sem berst öllu jafna fyrir hagsmunum annarra en sjálfrar sín, fari að huga að því að það er ekki nóg að skipta bara um stjórnmálaflokka eða stjórnmálamenn, það er nauðsyn að fara að huga að nýju kerfi, nýjum samfélagssáttmála. Nú er sumar, það er oft sól, engum D-vítamínskorti eða regnsótt fyrir að fara. Það er taumlaus orka í kortunum, sem má alveg brjótast út í hugþeytiveitum og spjalli um eitthvað annað en fótbolta og söngvakeppnir. Við höfum ekkert rosalega mikinn tíma til að koma heim og saman varanlegum lausnum.
Kreppa er yfirleitt eini tíminn í hringrás þenslu og samdráttar þar sem hægt er að koma á alvörubreytingum. En það þarf að gerast hratt áður en þeir kleptókratar sem hér ráða yfirleitt öllu koma yfir sig teflonhúðinni og finna lygatungunni símjúku stað í orðræðunni.
„Kannski er fólk bara ánægt með hlutina eins og þeir eru eða nógu sátt til að gera ekki neitt“
Ég hef svo sem sagt þetta allt áður og hef átt bágt með að finna einhvern tilgang með því að halda áfram að berjast fyrir betra samfélagi. Kannski er fólk bara ánægt með hlutina eins og þeir eru eða nógu sátt til að gera ekki neitt. En gömul vísa er aldrei of oft kveðin, ein kona sagði eitt sinn: Minn tími mun koma. Hér er önnur kona að tala um tímasetningar og langar að segja svipaðan hlut en þó allt annan, tími okkar mun koma, okkar sem erum plöguð af úttútnaðri siðferðiskennd og draumi um samfélag þar sem allir geta fengið að lifa með sæmd án þess að eiga það endalaust á hættu að fótunum sé kippt undan þeim við minnsta fjárhagslega mótvind ríkisvaldsins.
Ég mæli með því að lesa bækur, horfa á kvikmyndir, heimildarmyndir sem kveikja gneistann að nýjum hugmyndum, talið svo um þessar hugmyndir við aðra og sjáið hvað vængsláttur fiðrildisins nær að koma mikilli hreyfingu á umræðuna.
Ég er persónulega ekki með neinar töfralausnir, ég veit að í nýrri stjórnarskrá eru ákvæði sem breyta leikreglunum svo hægt sé að byrja upp á nýtt. Það er ljómandi góður grunnur til að byrja á. Þessi nýja stjórnarskrá er á mannamáli. Hún er kannski ekki fullkomin, en hún er upphafið að þessu nýja Íslandi sem ég veit að marga dreymir enn um.
Að lokum þá er vert að halda því til haga að ekkert hrun er eins, og þó svo að þetta sem er að byrja núna sé ekki eins og stóri jarðskjálftinn 2008, þá kemur það verst við þá sem eru enn að jafna sig eftir síðasta.
Athugasemdir