Það liggur nú kannski í augum uppi en ég tel að þeir allra reiðustu karlmenn séu ekki góður þverskurður á almenna upplifun karlmanna á jafnréttisumræðunni. Þvert á móti þá hallast ég að því að þeir sem froðufella af bræði og finna hjá sér þörf til að úthrópa eða níða fólk fyrir skoðanir gegn þeirra eigin, geti tæplega státað af eftirsóknarverðri karlmennsku né þroskuðu tilfinningalífi. Þó skil ég vel að gagnrýni geti vakið tilfinningaleg viðbrögð, sem er ekki óeðlilegt í sjálfu sér. Við hljótum samt að setja þau skilyrði að gagnrýni sé málefnaleg, hlustað sé á ólík sjónarmið og að tjáningarfrelsið gangi í báðar áttir.
Persónuvæðing
Persónulegar skoðanir á persónum þarf hver og einn að eiga við sig, en hversu gagnlegt er slíkt í umræðu um hugmyndir og samfélagsgerð? Kann persónuvæðing umræðunnar að stafa af málefnalegri fátækt? Ég held það og ég held að það sé líka gagnlegra að ræða málin út frá málefninu sjálfu en ekki persónum. Þar fyrir utan er ekki mjög gagnlegt að mynda sér afstöðu eingöngu út frá eigin upplifun eða reynslu án þess að taka tillit til samhengis. Það að ég hafi til dæmis aldrei verið beittur kynferðislegu ofbeldi þýðir ekki að karlar séu aldrei beittir kynferðislegu ofbeldi.
„Það að ég hafi til dæmis aldrei verið beittur kynferðislegu ofbeldi þýðir ekki að karlar séu aldrei beittir kynferðislegu ofbeldi“
Forvitnin
Femínískar konur hafa kennt mér hvað mest um karlmennsku og sjálfan mig í samhengi við virkni samfélagsins. Þær hafa gefið mér innsýn inn í reynsluheim sem ég gæti aldrei upplifað sjálfur og þær hafa bent á þemakennd einkenni í samfélagsgerðinni sem stuðla að ójafnrétti. Veitt mér sjónarhorn sem er stundum óþægilegt og jafnvel persónulegt en á sama tíma alls ekki persónulegt. Kannski hljómar það þversagnakennt en ég tel svo ekki vera. Með því að vera forvitinn á samspil einstaklinga og samfélagsgerðar (skipulags, viðmiða og laga) get ég séð hvernig mitt framlag getur annars vegar stutt við kyrrstöðu (óbreytt ástand) eða stutt við breytt ástand í átt til aukins jafnréttis. Þess vegna mæli ég með að karlar í forréttindastöðu (gagnkynhneigðir, hvítir, ófatlaðir, menntaðir, fjárhagslega vel stæðir o.s.frv.) skoði eigin stöðu af forvitni, hlusti á femínísk sjónarmið og styðji við jafnrétti. Helst með gjörðum sínum og leyfi ekki þessu reiða eina prósenti að skemma orðspor karlmanna.
Ef þú átt góða vini þá getur þú grátið
Máni Pétursson útvarpsmaður situr yfirleitt ekki á skoðunum sínum og hefur sína sýn á karlmennsku og karlmenn: „Mér finnst að við ættum frekar að tala um hvað það er að vera karlmaður heldur en hvað er karlmennska. Sterkur karlmaður er einhver sem er alveg meðvitaður um tilfininganæmi sitt og hvar hann stendur tilfinningalega. Er óhræddur við að sýna tilfinningar sínar en getur líka stigið fram og er óhræddur við að standa á sínum skoðunum.“
„Drengur sem hefur tilgang með því sem hann er að gera, stendur fyrir einhver gildi og veit hvert hann ætlar að fara, honum líður yfirleitt töluvert betur“
Þegar talið berst að því hvernig við komum því við meðal ungra drengja og karlmanna að skapa slíka karlmenn telur Máni að skólakerfið ætti að leggja meiri áherslu á vináttu og tilfinningafærni drengja. „Því að ef þú átt góða vini, þá geturðu í raun grátið fyrir framan þá og þú getur niðurlægt þig fyrir framan þá því þér líður illa yfir einhverju og þeir bakka þig upp og þeir styðja þig. Og þú þorir að sýna tilfinningar þínar gagnvart þeim.“
Máni segist starfa sem markþjálfi með ungum drengjum og það sem hrjái þá einna helst sé stefnuleysi og skortur á gildum. „Maður finnur það að drengur sem hefur tilgang með því sem hann er að gera, stendur fyrir einhver gildi og veit hvert hann ætlar að fara, honum líður yfirleitt töluvert betur.“
Strákar þurfa rými til að opna sig
Sólborg Guðbrandsdóttir, aktivisti og stofnandi Instagram-síðunnar Fávitar, sem hefur það markmið að vekja athygli á áreitni og ofbeldi á netinu, tekur í svipaðan streng og Máni hvað varðar stráka. „Við þurfum í fyrsta lagi að skapa meira rými fyrir stráka til að opna sig, bæði um tilfinningar sínar og líka um það þegar þeir eru beittir ofbeldi. Ég er ennþá að fá ótrúlega margar sögur sendar til mín þar sem er gert grín að strákum fyrir að segja: „Hæ, ég var misnotaður, eða, mér var nauðgað“ af því að það er oft þannig að þeir eiga bara að hafa verið heppnir að fá að stunda kynlíf. Við þurfum að grípa inn í á öllum vígstöðvum.“
„Ég er ennþá að fá ótrúlega margar sögur sendar til mín þar sem er gert grín að strákum fyrir að segja: Hæ, ég var misnotaður, eða, mér var nauðgað“
Sólborg telur að við þurfum að stórefla kynfræðslu í skólum og telur að það sé óeðlilega mikil pressa á drengjum þegar kemur meðal annars að kynlífi. „Það er rosa mikil pressa á stráka að vera fullkomnir, vera harðir, sýna engar tilfinningar, taka alltaf stjórnina og alltaf vera til í tuskið. Þegar þeir eru bara „hei, mér líður kannski bara ekki alveg nógu vel“ eða „þessi kom illa fram við mig“, þá er hlegið að því og þeir þurfa alltaf að „man up“. Sem er alveg ógeðslega brenglað og bara skaðleg skilaboð sem við erum að senda strákum.“
Ekki vera ruddi
Bergur Ebbi, rithöfundur og uppistandari, segist ekki taka nærri sér þá gagnrýni sem hugtakið karlmennska fær um þessar mundir: „Mér svíður ekkert þegar hugtak eins og karlmennska fær vonda meðferð og er sett saman við mjög neikvæð gildi. Af því að orðið sem slíkt er mér ekkert sérstaklega kært, þannig séð.“
Bergur Ebbi, líkt og flestir viðmælendur, vill ekki skilgreina karlmennsku en telur suma eiginleika eftirsóknarverðari en aðra. „Besta skapgerð sem maður getur reynt að tileinka sér og á alltaf að reyna að tileinka sér er þolinmæði og setja sjálfan sig ekki í fyrsta sæti. Ekki vera ruddi og láta sjálfan þig skína eða niðurlægja aðra. Heldur sýna þolinmæði og sjá að það eru til hugmyndir sem eru stærri en þú. Það eru til hlutir sem þarfnast meiri framgangs heldur en akkúrat þínir hagsmunir á hverjum tíma.“
„Besta skapgerð sem maður getur reynt að tileinka sér og á alltaf að reyna að tileinka sér er þolinmæði og setja sjálfan sig ekki í fyrsta sæti“
Þetta leiðir talið að umræðunni um jafnréttismál og karlmennsku, þar sem mörgum finnst illa að sér vegið og láta jafnvel tilfinningarnar ráða förinni. „Við eigum ekki að leyfa reiðasta fólkinu að ná til sín umræðunni og sópa til sín og í rauninni að manipúlera tilfinningar okkar. Nú er reyndar umræða uppi um hatursorðræðu og fleira, ég held að við eigum að taka hart á henni í þessum málum sem og öðrum viðkvæmum málum. Ég held samt að í öllu málefnum og umræðum, þá sé einhver hluti af umræðunni varla marktækur. Og við eigum ekkert að miða við stöðu málefnisins í heild út frá í rauninni æstasta minnihlutanum.“
Aðspurður hvernig karlmenn geti tekið þátt í þeim samfélagslegu breytingum sem byltingar síðustu ára hafa kallað eftir, hugsar Bergur Ebbi sig um í svolitla stund og telur að menn eigi ekki að vinna gegn byltingunum heldur hlusta: „Að langstærstum hluta held ég að það sé ekkert svo vitlaust hlutverk fyrir karlmenn að vera passívir og hlusta. Hlutir munu finna sinn farveg.“
Athugasemdir