Formaður félagsins Trans Ísland fer hörðum orðum um Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins, og ræður fólki gegn því að kjósa flokkinn. „Á þessu stigi þýðir það einfaldlega að kjósa gegn réttindum hinsegin fólks.“
Tilefni þessara hörðu orða Uglu Stefaníu Kristjönudóttur Jónsdóttur, formanns Trans Íslands, er frétt þess efnis að Sigmundur hafi í viðræðum við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra um þinglok krafist þess að frumvarp ríkisstjórnarinnar um kynrænt sjálfræði yrði tekið af dagskrá þingsins. Mun Katrín hafa brugðist við þeirri kröfu með því að slíta viðræðunum.
Ugla er ein þeirra sem kom að vinnu við gerð frumvarpsins og lýsir því á Facebook að unnið hafi verið að því í fjögur ár. Þessi framganga sýni að Sigmundur geri sér annað hvort ekki grein fyrir mikilvægi málsins eða sé einfaldlega alveg sama. Hvort tveggja sem er sé skammarlegt enda hafi transfólk og intersex fólk beðið lengi eftir þessari mikilvægu réttarbót.
„Ég vona innilega að allt fólk sem ég þekki muni hugsa sig tvisvar um áður en þau kjósa þennan flokk. Á þessu stigi þýðir það einfaldlega að kjósa gegn réttindum hinsegin fólks. Skammastu þín,“ skrifar Ugla.
Illkvittni gagnvart transfólki
Alexandra Briem, varaborgarfulltrúi Pírata, er einnig harðorð og segir þetta útspil Sigmundar vera illgirni. Alexandra, sem er transkona, segir að hún hafi í gegnum tíðin getað sagt, með bros á vör, að á Íslandi væri staðan svo góð að meira að segja íhaldssömustu flokkarnir settu sig ekki upp á móti réttindum transfólks. Það sé hins vegar augljóslega ekki rétt.
„Þetta nýjasta útspil hans er ekkert annað en illgirni. Hingað til gat ég trúað því upp á hann að hann væri bara í einhverjum eigin heimi með einhverja mjög skrítna sýn á eigið ágæti og eigin hugmyndir, en ekki lengur.
Að hann skuli voga sér að ætla að krefjast þess að frumvarp um kynrænt sjálfræði verði tekið af dagskrá er ekki hægt að skýra með öðrum hætti en illkvitni gagnvart transfólki,eða mögulega viljanum til að ganga í augun á fólki sem fyrirlítur fólk eins og mig.“
Athugasemdir