Bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar samþykkti á fundi sínum á þriðjudag að breyta nafni sveitarfélagsins í Akureyrarbær. Beðið er jákvæðrar umsagnar örnafnanefndar og staðfestingar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis.
Málið var á dagskrá bæjarstjórnar í febrúar, en þá var samþykkt að fresta málinu og gera skoðanakönnun á vettvangi íbúagáttar á vef bæjarins. Ákveðið var að ef afdráttarlaus vilji meirihluta íbúa kæmi fram yrði tekið mið af honum.
Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) gerði könnun í mars þar sem var meðal annars spurt: „Núverandi nafn sveitarfélagsins er Akureyrarkaupstaður, hvort vilt þú halda því nafni eða breyta því í Akureyrarbær?“ Niðurstöðurnar voru þær að 77% vildu breyta nafninu í Akureyrarbær, en 23% vildu halda nafninu Akureyrarkaupstaður.
Nokkur umræða spratt upp um nöfn sveitarfélaga í mars 2018 eftir fyrirspurn Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata, á Alþingi. Spurði hann meðal annars um nafn sameinaðs sveitarfélags Grímseyjar, Hríseyjar og Akureyrar og fékk það svar að það héti Akureyrarkaupstaður. Í svari samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kom einnig fram að höfuðborg Íslands heiti formlega Reykjavíkurborg.
Athugasemdir