Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefur vísað frá kæru Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, gegn Sigurði Má Jónssyni og Gísla Frey Valdórssyni og ætlar ekki að taka málið til efnislegrar meðferðar. Tilefni kærunnar var umfjöllun Sigurðar Más um Kjarnann sem birtist í nýjasta hefti Þjóðmála sem Gísli Freyr ritstýrir. Þórður hefur gagnrýnt skrifin harðlega og taldi siðareglur blaðamanna ná til þeirra í ljósi þess að Sigurður Már hefur sjálfur lýst umfjölluninni sem „fréttaskýringu“.
Í kæru sinni tiltók Þórður ýmis atriði sem farið var ranglega með í greininni og greindi frá tölvupóstssamskiptum sínum við Sigurð Má þar sem Sigurður hefði „ekki sýnt vilja til að leiðrétta þær skýru staðreyndavillur og annars konar rangfærslur sem er að finna í fréttaskýringunni né beiðnum um að biðja fólk sem gerðar eru upp skoðanir og hvatir í fréttaskýringunni afsökunar“.
Að mati siðanefndar ná hins vegar siðareglur Blaðamannafélags Íslands ekki til skrifanna í ljósi þess að í efnisyfirliti Þjóðmála er greinin merkt sem „umfjöllun“ en ekki frétt eða fréttaskýring. „Telur siðanefnd umrædda umfjöllun fremur bera persónulegan keim með framsetningu höfundar á skoðunum sínum á miðlinum fremur en rökstudda greiningu eða fréttaskýringu,“ segir í niðurstöðu nefndarinnar.
Einn nefndarmanna ósammála
Einn nefndarmanna, Friðrik Þór Guðmundsson, var ósammála meirihlutanum um frávísun málsins og taldi að leggja ætti lýsingu Sigurðar Más sjálfs á skrifum sínum sem „fréttaskýringu“ til grundvallar og taka kæruna til efnismeðferðar.
Athygli vekur að Jóhannes Tómasson er einn þeirra siðanefndarmanna sem standa að niðurstöðunni. Jóhannes var upplýsingafulltrúi dómsmálaráðuneytisins þegar Gísli Freyr Valdórsson, annar hinna kærðu, var aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra. Gísli fékk síðar refsidóm fyrir að leka afbökuðum trúnaðarupplýsingum um hælisleitendur til fjölmiðla í lekamálinu svokallaða en Jóhannes stýrði upplýsingagjöf ráðuneytisins og gaf út yfirlýsingar fyrir hönd þess þegar málið stóð sem hæst.
Þórður Snær segir í samtali við Stundina að sér þyki úrskurðurinn illskiljanlegur. „Siðanefnd neitar að taka efnislega fyrir skrif sem höfundurinn sjálfur skilgreinir sem fréttaskýringu, vegna þess að hún telur sig vita betur hvers eðlis efnið sé og skilgreinir það sem skoðanagrein. Þannig kemur siðanefndin sér undan því að taka afstöðu til alls ellefu ummæla höfundar sem við teljum borðleggjandi að brjóti gegn 1. og 3. grein siðareglna Blaðamannafélags Íslands, þar sem öll kærð ummæli eru ósannindi, aðdróttanir, afbakanir eða hugarburður höfundar,“ segir hann.
„Samkvæmt úrskurði siðanefndar þá eru væntanlega öll skrif í Þjóðmálum, sem er skráður fjölmiðill hjá Fjölmiðlanefnd með birta ritstjórnarstefnu, þess eðlis að þau falli ekki undir siðareglur Blaðamannafélags Íslands. Því má birta hvað sem er um hvern sem er á þeim vettvangi. Kannski væri best að siðanefndin, eða Blaðamannafélag Íslands, upplýsi bara um það um hvaða fjölmiðla siðareglurnar eigi við og hverja ekki og sömuleiðis hvaða blaðamenn séu til þess fallnir að ákveða sjálfir eðli skrifa sinna og hverjir ekki.“
Fleiri kæra skrif Sigurðar
Þórður bendir á að þótt úrskurði siðanefndar verði ekki áfrýjað sé ljóst að ansi margir einstaklingar hafi orðið fyrir barðinu á „þessum rætna atvinnurógi sem birtist um Kjarnann í Þjóðmálum í síðasta mánuði“. Þannig geti margir kært mál er varða grein Sigurðar Más til siðanefndar.
Það hefur raunar Magnús Halldórsson, annar starfsmaður Kjarnans, þegar gert. Að sögn Þórðar hefur sú kæra að geyma viðbótarupplýsingar um ritstýringu á grein Sigurðar Más og nýjar upplýsingar um að fyrir hafi legið að greinin væri ekki skoðanagrein áður en hún var birt.
Athugasemdir