Ef þorskastríðin ættu sér stað í dag mundi ríkisstjórnin gefa eftir gagnvart Bretum og fara sömu leið og hún ætlar sér í máli þriðja orkupakkans. Þetta er mat Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, í grein í Morgunblaðinu í dag þar sem hann lýsir ímyndaðri atburðarás þar sem deila Íslendinga og Breta um fiskveiðiheimildir á 6. til 8. áratug síðustu aldar fer fram í nútímanum.
Í greininni, sem ber titilinn „Hvað ef þorskastríðin hæfust núna?“ segir Sigmundur Davíð að stjórnmálin og samfélagið séu að breytast og ekki endilega til góðs. „Þótt sumir telji hin nýju stjórnmál tímanna tákn og álykti að nútíminn sé alltaf betri en allt annað getur verið gagnlegt að setja hlutina í sögulegt samhengi,“ skrifar hann. „Það má t.d. velta fyrir sér hvernig mál hefðu þróast ef mikilsverðir atburðir fortíðar hefðu átt sér stað nú á dögum.“
Í framhaldinu lýsir hann skáldaðri atburðarás þar sem breskir togarar hafa aukið veiðar sínar á Íslandsmiðum. Lýsir hann því hvernig „réttarfars- og mannúðarráðuneytið“ mundi hafna beiðni Landhelgisgæslunnar um notkun togvíraklippna til að klippa á veiðarfæri Breta vegna formlegheita, skriffinsku og umhverfissjónarmiða.
Þá lýsir hann því hvernig „virkir í athugasemdum“ og „tístarar“ mundu gera grín að Landhelgisgæslunni fyrir hugmyndinni um klippurnar. „Öllu þessu eru gerð góð skil í spjallþætti á RÚV þar sem vinir drekka saman kaffi og veltast um af hlátri yfir umræðu um landa sína sem telji að þeir séu mikils megnugir og ætli í slag við alþjóðasamfélagið með heimatilbúinn „minisjóplóg“ að vopni,“ skrifar Sigmundur Davíð.
Sigmundur Davíð tekur dæmi um brandara sem hann ímyndar sér að birtir yrðu á samfélagsmiðlum vegna þorskastríða nútímans. „Skemmtilegastur þykir tístari úr Vesturbæ Reykjavíkur sem sýnir mynd af sundblöðkum, flothring í formi guls andarunga og bleikum barnaskærum með athugasemdinni: „Nýjasta hugmynd forstj. Landhg. að lausn landh.deilunnar #islenskisjoherinn“.“
Í framhaldinu lýsir hann því hvernig flokkurinn „Samhreyfingin“ mundi nota málið sem rök fyrir því að ganga í Evrópusambandið. Hann tengir málið við þriðja orkupakkann og umræðuna um fyrirvara um að sæstrengur verði ekki lagður til Íslands nema með aðkomu Alþingis. „Aðrir benda á að lausnin felist í tillögu um að Alþingi samþykki fyrirvara þess efnis að Bretar skuli ekki auka veiðar sínar innan 50 mílna frá því sem nú er nema að undangenginni umfjöllun Alþingis. Þeir sem efast um þessa leið eru spurðir hvort þeir treysti ekki Alþingi.“
Sigmundur Davíð segir að allir sem mundu ekki vilja gefast upp gegn kröfum Breta í þessum þorskastríðum nútímans yrðu sakaðir um „einangrunarhyggju og poppúlisma“ vegna „þjóðernislegrar frekju“. Segir hann að litla hjálp yrði að fá frá Norðurlöndunum og öðrum vinaþjóðum. „Sérstaklega er varað við því að leita liðsinnis Bandaríkjanna (þar er Trump) eða Rússlands (þar er Pútín),“ skrifar Sigmundur Davíð.
Loks segir hann að ákveðið yrði að fara „fyrirvaraleiðina“ í trássi við vilja kjósenda, sömu leið og ríkisstjórnin vill fara í máli þriðja orkupakkans. Þá yrði gerð krafa um að dregið yrði úr fiskveiðum á alþjóðavísu vegna umhverfissjónarmiða. „Þannig megi draga úr losun gróðurhúsalofttegunda,“ skrifar Sigmundur Davíð. „Þannig væru einnig settar hömlur á að skip sigldu of langt frá landi. Fyrir vikið þyrfti Landhelgisgæslan ekki að sigla um allar trissur og með því myndi kolefnisspor stofnunarinnar minnka verulega“
Athugasemdir