Þetta og svo ótal margt fleira er á döfinni næstu tvær vikurnar.
Eldur á hafi úti
Hvar? Bíó Paradís
Hvenær? 9. júní kl. 17.45
Aðgangseyrir: Ókeypis!
Flóttamenn á Íslandi bjóða almenningi á sérstaka og ókeypis aukasýningu heimildamyndarinnar Eldur á hafi úti (e. Fire at Sea). Myndin fjallar um ástandið á landamærunum sem umlykja Evrópu. Hún dregur fram í dagsljósið hvers vegna brottvísanir flóttamanna til landa eins og Ítalíu, Grikklands, og Ungverjalands eru ómannúðlegar. Kvikmyndin vann Gullbjörninn á 66. kvikmyndahátíðinni í Berlín. Leikkonan Meryl Streep var formaður dómnefndar, en hún hafði orð á því hvernig djörf blanda af markvissum söguþræði og upptökum frá vettvangi væri til þess fallið að nýta form heimildamyndarinnar út í ystu æsar. Söguþráður myndarinnar væri mikilvægur, frásögnin hugmyndarík og gerð myndarinnar áríðandi í nútímanum.
Kæra Jelena
Hvar? Borgarleikhúsið
Hvenær? 7. & 15. júní
Aðgangseyrir: 6.500 kr.
Komið er að lokasýningum þessa merka leikrits sem fjallar um hóp menntaskólanemenda sem hittir umsjónarkennara sinn með það að marki að ráða hana af dögum. Í Kæru Jelenu takast kynslóðir á í verki sem spyr stórra spurninga um siðferðisleg mörk, einstaklingshyggju og hugsjónir. Verkið var sett upp í Þjóðleikhúsinu árið 1991 þar sem það fékk mikið lof, en uppfærsla Borgarleikhússins hefur sömuleiðis vakið mikla athygli.
Skjaldborg 2019
Hvar? Patreksfirði
Hvenær? 7.–10. júní
Aðgangseyrir: Ókeypis!
Skjaldborg er árleg hátíð íslenskra heimildamynda, en hún er haldin á Patreksfirði. Í ár verða sýndar fjórtán nýjar og ferskar myndir auk sex verka í vinnslu. Á hátíðinni eru áhorfendaverðlaun veitt og sömuleiðis verðlaun dómnefndar. Ókeypis er inn á allar myndir hátíðarinnar og tilboð á kræsingum. Ragnheiður Maísól fer með burlesque-atriði í lok hátíðarinnar og ábreiðusveitin Bjartar sveiflur spilar þekkt lög.
Vök – útgáfutónleikar
Hvar? Hard Rock Cafe
Hvenær? 8. júní kl. 21.00
Aðgangseyrir: 3.490 kr.
Rafmagnaða popphljómsveitin Vök sendi nýlega frá sér sína aðra breiðskífu, In The Dark, og í kjölfarið hóf hún ítarlegt tónleikaferðalag um Evrópu við góðar undirtektir. Þar sem hljómsveitin er komin heim ætlar hún að blása til útgáfutónleika. Vök var sigurvegari Músiktilrauna 2013 og fyrri breiðskífa þeirra Figure var valin 'Raftónlistarplata ársins 2017' á Íslensku tónlistarverðlaununum.
Gringlo – lokatónleikar
Hvar? Hof Akureyri
Hvenær? 8. júní kl. 20.00
Aðgangseyrir: 2.500 kr.
Síðastliðin misseri hefur akureyrska hljómsveitin Gringlo skapað sér orðstír fyrir að dreifa hlýjum straumum í gegnum tónlist sína og textagerð. Þessi indí-sveit hefur verið starfrækt í fjögur ár og hefur það að markmiði að lyfta vitund einstaklingsins og samfélagsins á æðra stig í gegnum tónlistarupplifun. Sveitin fagnar útgáfu plötunnar From Source to the Ocean - A Tale Of Two Rivers á þessum tónleikum sem eru jafnframt þeir síðustu.
Mjúkberg
Hvar? Ekkisens
Hvenær? Til 16. júní
Aðgangseyrir: Ókeypis!
Þessi sýning Söru Bjargar Bjarnadóttur á skúlptúrum sem gerðir eru úr framtíðarbergtegund fer senn að ljúka. Sara kannar samskipti milli líkamlegra hvata og rökhugsunar í list sinni þar sem efni og form stýra líkamlegu ferli. Sýningin er opin um helgar frá 15.00 til 18.00.
Ragnheiður Gröndal og Guðmundur Pétursson
Hvar? Norræna húsið
Hvenær? 12. júní kl. 21.00
Aðgangseyrir: frá 2.000 kr.
Ragnheiður Gröndal og Guðmundur Pétursson hafa lengi haft áhuga á íslenskri þjóðlagatónlist og tilheyrir hún hefð sem er að mestu leyti horfin og fáar reglur hafa verið skrifaðar. Sú staðreynd opnar fyrir persónulega tjáningu, nýjar uppgötvanir og listrænt frelsi. Þess vegna má segja að tónlist tvíeykisins sé hefðbundin, nútímaleg og framsækin allt í senn.
Auður
Hvar? Bæjarbíó
Hvenær? 13. júní kl. 20.30
Aðgangseyrir: 3.990 kr.
Silkimjúki og viðkunnanlegi R&B listamaðurinn Auður hefur átt farsælt ár; hann gaf út breiðskífuna Afsakanir í nóvember síðastliðinn sem var valin raftónlistarplata ársins 2019 á Íslensku tónlistarverðlaununum. Hann spilar í heimabæ sínum með fjögurra manna hljómsveit. Þar verður nýja platan spiluð í heild sinni, auk vel valinna eldri laga.
GRL PWR x Spice Girls x Píkupopp
Hvar? Gaukurinn
Hvenær? 14. júní kl. 22.00
Aðgangseyrir: 3.500 kr.
Í tilefni þess að tveir áratugir eru liðnir frá því að Kryddpíurnar voru upp á sitt besta hefur hópur af ungum og efnilegum söngkonum sem kenna sig við GRL PWR komið saman til að fagna þessum miklu áhrifavöldum. Á þessu heiðurskvöldi koma fram Salka Sól Eyfeld, Elísabet Ormslev, Stefanía Svavars, GDRN og Karó. Auk laga Kryddpíanna verða líka flutt píkupopplög frá svipuðum tíma.
Söngleikurinn Hárið
Hvar? Þjóðleikhúsið
Hvenær? 14. & 15. júní kl. 19.30
Aðgangseyrir: 6.500 kr.
Þrátt fyrir að vera kominn á sextugsaldurinn er Hárið ennþá einn af vinælustu söngleikjum Vesturlanda. Leikflokkur Húnaþings vestra flytur þennan söngleik, en hann var valinn athyglisverðasta áhugaleiksýning leikársins 2018–2019 og var flokknum því boðið að setja sýninguna upp á Stóra sviði Þjóðleikhússins. Hárið er kraftmikil sýning sem fagnar lífinu, frelsinu og jafnréttinu.
Kveðjutónleikar Lucy in Blue
Hvar? Gaukurinn
Hvenær? 15. júní kl. 20.00
Aðgangseyrir: 1.000 kr.
Sækadelísku og hárprúðu ærslabelgirnir í Lucy in Blue hengja upp rafmögnuðu rokktækin sín og trommukjuða vegna flutninga. Hljómsveitin hefur notið dyggs stuðnings í gegnum árin og gaf út samnefnda plötu árið 2016 auk plötunnar In Flight síðastliðinn apríl. Þeim til stuðnings á þessum kveðjutónleikum verða leðjukenndu stóner-rokkararnir Godchilla og suðurríkja-rokkararnir Volcanova.
Áþreifanlegir kraftar
Hvar? Ásmundarsafn
Hvenær? 15. júní til 25. ágúst
Aðgangseyrir: 1.800 kr.
Jóhann Eyfells hefur notið umtalsverðrar virðingar fyrir verk sín og vinnubrögð. Hann var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 1993 ásamt Hreini Friðfinnssyni. Hann byrjaði snemma á sjötta áratugnum að skapa abstrakt skúlptúra sem byggðust á tilraunum í eðlis- og efnafræði og sérstaklega umbreytingu málma við steypu. Sérstakt opnunarhóf verður haldið 15. júní kl. 16.00.
Dikta
Hvar? Harpa
Hvenær? 16. júní kl. 19.30
Aðgangseyrir: frá 4.990 kr.
Indí-hljómsveitin Dikta heldur stórtónleika í tilefni af 20 ára afmæli hljómsveitarinnar og tíu ára afmæli plötunnar Get It Together. Dikta hefur á ferli sínum komið víða við, gefið út fimm breiðskífur, haldið í mörg tónleikaferðalög utan landsteinanna og spilað á öllum helstu tónleikasviðum landsins. Hljómsveitin mun snúa aftur og líta yfir farinn veg á þessum tónleikum, en leikin verða lög af öllum plötum sveitarinnar.
Reykjavík Midsummer Music 2019
Hvar? Harpa og Mengi
Hvenær? 20.–23. júní
Aðgangseyrir: 16.900 kr.
Hin margverðlaunaða hátíð Reykjavík Midsummer Music verður haldin í sjöunda sinn í ár, en stofnandi hátíðarinnar og listrænn stjórnandi er Víkingur Heiðar Ólafsson. Meðal gesta á hátíðinni í ár eru Florian Boesch barítónsöngvari, Ilya Gringolts og Anahit Kurtikyan fiðluleikarar og Yura Lee lágfiðluleikari og frönsku píanóleikararnir Katia og Mariella Labeque sem leika í fyrsta sinn á Íslandi, en þær eru af mörgum taldar fremsta píanódúó síðustu 30 ára.
Tákn
Hvar? Þak Arnarhvols
Hvenær? til 1. september
Aðgangseyrir: Ókeypis!
Tákn er verk eftir Steinunni Þórarinsdóttur sem sett er upp á þaki Arnarhvols við Ingólfsstræti í Reykjavík í tilefni af ári listar í almannarými. Steinunn hefur unnið að fígúratífum skúlptúr frá byrjun ferils síns fyrir fjórum áratugum. Fígúrur hennar eru kynlaus tákn mennskunnar. Verk Steinunnar hafa frá upphafi tengst íslenskri náttúru sterkum böndum. Samtal mannsins við náttúruna, umhverfi sitt og samfélagið er leiðarstef í list hennar.
Athugasemdir