Björgólfur Thor Björgólfsson tók þátt í skuldabréfaútboði WOW air síðasta haust fyrir 3 milljónir evra, eða andvirði um 417 milljóna króna, í gegnum félagið Reliquum í sinni eigu. Þetta kemur fram í nýrri bók Stefáns Einars Stefánssonar, viðskiptaritstjóra Morgunblaðsins, sem blaðið fjallar um í dag.
Í bókinni kemur fram að sterk gögn bendi til þess að um helmingur þeirra rúmlega 50 milljóna evra sem söfnuðust í útboðinu hafi fengist á þeim forsendum að skuldabréfakaupendur myndu breyta skammtímaskuldum félagsins í langtímaskuldir, eins og gert var í tilfelli Arion banka. Eigendur skuldabréfanna eiga nú kröfu í þrotabú WOW air eftir fall flugfélagsins.
Um helmingur þess fjár sem safnaðist í útboðinu kom frá einstaklingum og fyrirtækjum sem stóðu WOW air eða Skúla Mogensen, eiganda þess, nærri vegna persónulegra eða viðskiptalegra tengsla. Þar á meðal voru flugvélaleigufyrirtækin Avalon og AirLease Corporation, flugvélaframleiðandinn Airbus, móðurfélag Airport Associates og félag í eigu Margrétar Ásgeirsdóttur, fyrrverandi eiginkonu Skúla.
Björgólfur Thor er auðugasti maður Íslands. Hann og Skúli eru gamlir vinir og ráku saman skemmtistaðinn á Hótel Borg og Tunglið á tíunda áratug síðustu aldar.
Athugasemdir