Lögmenn þingmanna Miðflokksins kröfðust þess í þremur bréfum til Persónuverndar að Bára Halldórsdóttir, kona með gigtarsjúkdóm sem reiðir sig á örorkubætur, yrði látin greiða stjórnvaldssekt.
Nýjasta bréfið var sent 8. maí síðastliðinn af Rúti Erni Birgissyni héraðsdómslögmanni. Þar er því haldið fram að „öll efni standi til að ákvarða gagnaðila í málinu stjórnvaldssekt“.
Samkvæmt nýuppkveðnum úrskurði Persónuverndar braut Bára persónuverndarlög þegar hún hljóðritaði samskipti þingmannanna á veitingastaðnum Klaustri í fyrra.
Persónuvernd lítur þó sérstaklega til þess í niðurstöðu sinni að ekki var sýnt fram á „samverknað“ og að samræðurnar sem Bára tók upp hafa orðið „tilefni mikillar umræðu í samfélaginu um háttsemi þjóðkjörinna fulltrúa“. Með hliðsjón af þessu er henni ekki gert að greiða sekt.
Stundin greindi fyrst frá kröfu Miðflokksmanna um að Bára yrði sektuð þann 17. desember síðastliðinn. Sú krafa var ítrekuð í bréfi Reimars Péturssonar lögmanns í byrjun febrúar. „Álagning stjórnvaldssekta er liður í virkri réttarvernd fyrir ólögmætum inngripum í friðhelgi einkalífs. Má því ætla að Persónuvernd sé skylt að leggja þær á nema álagning þeirra teldist „ótvírætt brot“ á rétti til tjáningarfrelsis skv. stjórnarskrá,“ skrifaði Reimar.
Í úrskurði Persónuverndar sem kveðinn var upp í dag er vitnað í nýlegra bréf frá öðrum lögmanni Miðflokksmanna, Rúti Erni Birgissyni. Þar kemur fram að kvartendur telji sig „þolendur skýlauss brots gegn ákvæðum laga nr. 90/2018“ og öll efni standi til þess að Bára verði sektuð. „Miðað við þá vitneskju sem liggi fyrir um fjárhag gagnaðila þyki þó kvartendum ef til vill óþarft að leggja á hærri sekt en sem nemi sektarlágmarkinu, þ.e. 100.000 krónum.“
Nú liggur fyrir að ekki verður orðið við þessari kröfu. Enn á þó eftir að koma í ljós hvort þingmenn Miðflokksins láti verða af því að höfða einkamál gegn Báru Halldórsdóttur. Hefur lögmaður þeirra viðrað þann möguleika að krafist verði miskabóta úr hendi hennar.
Athugasemdir