Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis telur enga þörf á því að skylda stjórn Þjóðarsjóðs til að útvista daglegum rekstri sjóðsins. Þá vija nefndarmenn að settar verði skýrari um hæfisskilyrði þeirra sem munu taka að sér stjórn sjóðsins.
Þetta kemur fram í nefndaráliti og breytingartillögu sem meirihluti nefndarinnar hefur lagt fram vegna frumvarps Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um stofnun Þjóðarsjóðsins.
Meirihlutinn leggur til að mælt verði fyrir um að stjórnarmenn skuli vera lögráða og hafa gott orðspor auk þess sem þeir megi ekki hafa misst forræði á búi sínu eða hlotið dóm eða sætt íþyngjandi stjórnvaldsviðurlögum fyrir fjármunabrot í tengslum við atvinnurekstur. „Jafnframt verði tekið fram að stjórnarmenn megi ekki hafa með höndum önnur störf sem dregið geti úr óhlutdrægni þeirra,“ segir í nefndarálitinu, en að því standa Óli Björn Kárason, nefndarformaður, Bryndís Haraldsdóttir og Sigríður Á. Andersen úr Sjálfstæðisflokknum, Ólafur Þór Gunnarsson úr Vinstri grænum og Silja Dögg Gunnarsdóttir úr Framsóknarflokknum.
Eins og Stundin fjallaði um í febrúar síðastliðnum gerði upprunalegt frumvarp Bjarna Benediktssonar ráð fyrir að daglegum rekstri þjóðarsjóðs yrði útvistað til einkaaðila. Þannig var 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins orðuð með eftirfarandi hætti: Stjórn sjóðsins skal með samningi fela aðila með viðhlítandi sérþekkingu á erlendum fjármálamörkuðum að annast vörslu sjóðsins, ávöxtun og daglegan rekstur, þar á meðal fjárfestingar. Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar vill bregðast við gagnrýni Fjármálaeftirlitsins sem taldi óæskilegt að einn og sami aðilinn annaðist vörslu, eignastýringu, daglegan rekstur og innra eftirlit með starfseminni. Samkvæmt tillögu nefndarmanna yrði málsgreinin orðuð svo: Stjórn sjóðsins skal með samningi fela þar til bærum aðilum vörslu sjóðsins og áhættustýringu og öðrum aðila, með viðhlítandi sérþekkingu á erlendum fjármálamörkuðum, að annast eignastýringu. Telja nefndarmenn „enga þörf á því að skylda stjórn sjóðsins til að útvista daglegum rekstri hans“.
Athugasemdir