Jón Ólafsson, heimspekingur og prófessor við Háskóla Íslands sem var formaður starfshóps ríkisstjórnarinnar um eflingu trausts á stjórnmálum, segir að siðanefnd Alþingis hafi „fallið í gryfju absolútisma“ og túlkað orðalag með einstrengingslegum hætti þegar hún komst að þeirri niðurstöðu að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingkona hefði brotið siðareglur.
Eins og Stundin greindi frá í dag er það mat siðanefndarinnar að Þórhildur Sunna hafi farið á svig við reglurnar og þannig kastað rýrð á Alþingi og skaðað ímynd þess þegar hún sagði í Silfrinu þann 25. febrúar 2018 að uppi væri rökstuddur grunur um að Ásmundur Friðriksson þingmaður hefði dregið sér fé.
„Gallinn við siðanefndir: Þegar þær eiga að fara að úrskurða hættir þeim til að líta þröngt og einstrengingslega á orðalag, merkingu eða aðra þætti virðast leyfa skýra niðurstöðu,“ skrifar Jón Ólafsson á Facebook.
„Siðanefnd Alþingis kýs (í máli Ásmundar Friðrikssonar) að skilja orðin „rökstuddur grunur“ svo, að þau hljóti að hafa þá tilteknu lögfræðilegu merkingu, að minnsta kosti í meðförum Alþingismanns, að með þeim fullyrði hann/hún tilvist áþreifanlegra upplýsinga eða gagna um það sem grunurinn beinist að.
En lögfræðileg merking þessa orðasambands trompar alls ekki hversdagslega merkingu orðanna rök og grunur í pólitískum umræðum. Þess vegna er engin knýjandi ástæða fyrir siðanefndina að halda því fram að þingmaður sem notar þessi orð sé að fullyrða annað eða meira en að margvísleg rök séu fyrir því að gruna eitthvað.“
Jón segir siðanefndina ekki vera þá fyrstu til að falla í gryfju absolútisma þar sem því er haldið fram að einhver tiltekin merking orða hljóti að hafa forgang fram yfir aðra merkingu. „En fall hennar vekur vissulega spurningar um hvort það er heppilegt að fylgja siðferðilegum viðmiðum þingmanna eftir með úrskurðarnefnd.“
Athugasemdir