Aðgerðahópurinn Orkan okkar hefur safnað um 12 þúsund undirskriftum gegn innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins í íslenskan rétt.
Þetta kemur fram á Facebook-síðu samtakanna. Samkvæmt könnun sem Zenter rannsóknir unnu fyrir Fréttablaðið voru 48,7 prósent svarenda andvíg samþykkt þriðja orkupakkans, 29,6 prósent hlynnt og 21,7 prósent hlutlaus.
Eins og sjá má hér að ofan hafa liðsmenn Orkunnar okka staðið vaktina í Kringlunni í dag og safnað undirskriftum.
Í morgun birtu samtökin heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu með sögulegri tilvísun til þorskastríðanna. „Við unnum þorskastríðin á köldu Atlantshafinu. Töpum ekki orkustríðinu í hlýjunni á Alþingi,“ segir þar.
Afgerandi stuðningur er við innleiðingu þriðja orkupakkans á Alþingi, bæði meðal stjórnarliða og stjórnarandstöðu, en þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins hafa farið mikinn gegn pakkanum sem þeir telja að ógni fullveldi Íslands.
Opinber fyrirtæki á borð við Landsvirkjun og Landsnet styðja innleiðingu gerðanna og telja af hinu góða. Sama er að segja um helstu hagsmunasamtök atvinurekenda og fyrirtækja.
Alþýðusamband Íslands hefur hins vegar lagst gegn innleiðingunni, gagnrýnt markaðsvæðingu vegna fyrri orkupakka og kallað þróunina „feigðarflan“.
Athugasemdir