Þótt raforkueftirlitsgjald hækki um 45 prósent vegna innleiðingar þriðja orkupakkans verða áhrifin á gjaldskrár sérleyfisfyrirtækja sem flytja og dreifa rafmagni óveruleg. Þetta segir Baldur Dýrfjörð, lögfræðingur Samorku, samtaka orkufyrirtækja.
Innleiðingu þriðja orkupakkans fylgja lagabreytingar er varða sjálfstæði Orkustofnunar og auknar valdheimildir við framkvæmd raforkueftirlits. Þannig fær stofnunin heimild til að áminna rekstraraðila og leggja á stjórnvaldssektir auk þess sem gjaldið sem stendur undir kostnaði við eftirlitið hækkar, annars vegar úr 0,4 aurum í 0,58 aura á hverja kWst fyrir raforku mataða inn á flutningskerfið og hins vegar úr 1 aur í 1,45 aura á kWst fyrir raforku til dreifiveitna.
„Samtals fer þetta þannig úr 1,4 aur upp í 2,03 aura. Algengt flutnings- og dreifigjald er í kringum 5,50 krónur en 8,50 krónur í dreifbýli. 2,03 aurar eru því brot úr prósenti til hækkunar á endaverði, eða í kringum 0,23 til 0,37 prósent,“ segir Baldur í samtali við Stundina og bætir því við að kostnaður vegna þriðja orkupakkans gagnvart neytendum sé þannig nær enginn.
Samtök orkufyrirtækja hafa lagst gegn því að raforkueftirlitsgjöldin hækki. „Skiptir þá ekki máli þó gert sé ráð fyrir að hægt verði að varpa umræddum kostnaði út í verð þjónustunnar,“ segir í umsögn þeirra. Raforkueftirlitsgjaldið mun falla í flokk rekstrarkostnaðar sem er skilgreindur með öðrum sambærilegum kostnaðarþáttum sem teljast ekki viðráðanlegir. Þannig mun hækkunin skila sér beint í uppgjör tekjumarka sérleyfisfyrirtækjanna og gjaldskrárnar. Áhrifin á verð til neytenda eru þó hverfandi að sögn Baldurs.
HS Orka víkur að sömu atriðum í umsögn sinni um innleiðingu þriðja orkupakkans í íslenskan rétt, telur viðbúið að hækkunin „skili sér í verði á raforku og muni á endanum leggjast á notendur raforku, bæði heimili og fyrirtæki“.
Athugasemdir