Samtök orku- og veitufyrirtækja á Íslandi leggjast gegn því að raforkueftirlitsgjöld verði hækkuð vegna innleiðingar þriðja orkupakkans og segja að gert sé ráð fyrir því að „hægt verði að varpa umræddum kostnaði út í verð þjónustunnar“.
Þetta kemur fram í umsögn samtakanna, Samorku, um innleiðingu þriðja orkupakkans í íslenskan rétt. Jafnframt lýsa þau áhyggjum af því að Orkustofnun fái of rúmar heimildir til að leggja á stjórnvaldssektir.
Innleiðingu þriðja orkupakkans fylgja lagabreytingar er varða sjálfstæði Orkustofnunar og auknar valdheimildir við framkvæmd raforkueftirlits. Þannig fær stofnunin heimild til að áminna rekstraraðila og leggja á stjórnvaldssektir auk þess sem gjaldið sem stendur undir kostnaði við raforkueftirlit er hækkað, meðal annars vegna kostnaðar af þátttöku í ACER, hinni samevrópsku Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði.
„Ef starfsemi raforkueftirlits á að fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru samkvæmt þriðju raforkutilskipuninni þurfi að auka fjármagn til starfseminnar til muna,“ segir í greinargerð sem fylgir frumvarpi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur um breytingar á raforkulögum. „Til að Orkustofnun geti sinnt lögbundnu raforkueftirliti sínu með sjálfstæðum og fullnægjandi hætti, og mætt þeim nýju verkefnum sem þriðja raforkutilskipunin kveður á um, er með frumvarpi þessu lagt til að raforkueftirlitsgjald skv. 31. gr. raforkulaga hækki um 45%, þ.e. í 0,58 aura á hverja kWst fyrir raforku mataða inn á flutningskerfið og í 1,45 aura á kWst fyrir raforku til dreifiveitna.“
Samtök orkufyrirtækja segjast ekki geta tekið undir nauðsyn þess að hækka eftirlitsgjöldin. „Skiptir þá ekki máli þó gert sé ráð fyrir að hægt verði að varpa umræddum kostnaði út í verð þjónustunnar,“ segja þau.
Þá telja samtökin að forsendur sektarheimilda séu ekki útskýrðar í greinargerð frumvarpsins. „Þetta verður sýnu alvarlegra þegar haft er í huga að sektarheimildir geti numið allt að 10% af veltu viðkomandi fyrirtækis. Hér hlýtur að skipta máli t.d. hvort um er að ræða gangaskil eða meint brots sem snúa að mögulegu tjóni viðskiptavina fyrirtækjanna. Sömuleiðis hlýtur það að eiga skipta máli hvort um yfirsjón er að ræða (gáleysi) eða beinan ásetning viðkomandi fyrirtækis. Eru því gerðar alvarlegar athugasemdir við hversu opið ákvæðið er og þar með hversu erfitt verður fyrir Orkustofnun að framkvæma það.“
Samorka eru samtök orku- og veitufyrirtækja á Íslandi en innan þeirra starfa fráveitur, hitaveitur, vatnsveitur, raforkuframleiðendur, raforkusalar og flutnings- og dreifingaraðilar raforku. Þrátt fyrir ofangreindar athugasemdir við fyrirhugaðar lagabreytingar hefur Samorka lýst yfir stuðningi við innleiðingu þriðja orkupakkans. Er þetta áréttað í umsögninni og ánægju lýst með þær breytingar sem gerðar hafa verið á skipulagi og umgjörð raforkumála frá aldamótum. Hér má lesa umsögnina í heild.
Uppfært 8. maí kl. 18:00:
Upphaflega sagði fram í fréttinni að Samorka gerði ráð fyrir að orkufyrirtækin gætu varpað kostnaði vegna hækkunar eftirlitsgjaldsins út í verðlagið. Hið rétta er að Samorka bendir á að frumvarpið sjálft gerir ráð fyrir því að aukinn kostnaður vegna hækkunarinnar sé bætt ofan á gjaldskrá. Er þar vísað til þess að flutningsfyrirtækið og dreifiveiturnar eru í sérleyfisstarfsemi og tekjumörk (gjaldskrá) þeirra ákvörðuð samkvæmt lögum og undir eftirliti Orkustofnunnar. Fréttinni hefur verið breytt og beðist er velvirðingar á þessu.
Athugasemdir