„Við ætlum ekki að hringja í lögregluna því þessir tveir herramenn hérna eru lögreglan. Svo við munum bara nota þá.“
Þannig komst Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, að orði þegar hann stýrði fundi hverfisfélaga Sjálfstæðisflokksins um þriðja orkupakkann upp úr hádegi.
Tveir hælisleitendur höfðu staðið upp og beint spurningum, ótengdum viðfangsefni fundarins, að ráðherrum sem viðstaddir voru, þeim Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur dómsmálaráðherra og Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra.
Þegar hælisleitendurnir neituðu að ljúka máli sínu og setjast niður gekk að þeim maður, merktur Sjálfstæðisflokknum, og hótaði að fjarlægja þá með valdi.
Hann þreif í einn hælisleitandinn og ýtti við honum. „Við erum lögreglan. Sittu kyrr,“ sagði hann. Þá þreif hann í annan erlendan mann sem þó hafði ekki tekið til máls og reyndi að reka hann út.
Vilhjálmur Þorsteinsson fjárfestir, sem viðstaddur var fundinn og sat fyrir aftan hælisleitendurna, birtir myndband af uppákomunni á Facebook.
„Hér á fundi Sjálfstæðisflokksins um þriðja orkupakkann varð uppákoma þegar hælisleitendur í hópi fundargesta óskuðu þess að spyrja ráðherrana spurninga um sín málefni,“ skrifar hann. „Athygli vakti þegar einhverjir gaurar hér í borgaralegum fötum merktir Sjálfstæðisflokknum með nafnspjöldum sögðust vera lögreglan og ætluðu að taka mál í eigin hendur með valdbeitingu.“
Vilhjálmur lýsir aðdragandanum með þeim hætti að maðurinn hafi beðið um orðið og fengið hljóðnema í hendurnar til að bera upp spurningu sína. „Lætin byrjuðu þegar hann hóf spurningu sína á ensku, þá var honum strax illa tekið af fundarmönnum og fundarstjóra,“ skrifar hann á Facebook.
Athugasemdir