Flutningskerfi raforku tapar árlega því sem nemur afli virkjunarinnar Svartsengis. Um 400 gígavattstundir töpuðust á síðasta ári við flutning raforku frá virkjunum til almenningsveitna og stórnotenda. Er það aukning um 6,7 prósent á milli ára, að því er kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Sverrir Jan Norðfjörð, formaður raforkuhóps orkuspárnefndar og framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs Landsnets, segir að þarna sé miklum verðmætum sóað. „Við höfum verið að auka framleiðsluna jafnt og þétt síðustu ár en höfum ekki staðið okkur nægilega vel að byggja upp flutningskerfið,“ segir hann. „Mikið hefur verið rætt um matarsóun og annað í þeim dúr þar sem keppst er við að nýta matvæli og vekja fólk til umhugsunar um þau verðmæti sem fara til spillis. Því þurfum við kannski að fara að horfa til raforkunnar einnig.“
Ástæða þess að orkan tapast er sú að flutningskerfi raforku er ekki nógu vel í stakk búið til að takast á við flutningana, að sögn Sverris. „Vitaskuld munum við alltaf horfa upp á einhver flutningstöp í kerfinu, hjá því verður ekki komist,“ segir hann. „Hins vegar er flutningstapið núna jafn mikið og aflið úr Svartsengi svo þetta eru nokkuð stórar tölur.“
Svartsengi er virkjun á Reykjanesi sem framleiðir bæði hita og rafmagn. Framleiðir hún um 75 megavött árlega.
Athugasemdir