Skúli Mogensen, fjárfestir og fyrrverandi eigandi flugfélagsins WOW air, vill ekki svara því hvort hann hafi verið í sambandi við skiptastjóra þrotabús WOW air með það fyrir augum að kaupa eignir af búinu. Skúli er kominn af stað með að reyna að stofna nýtt lágggjaldaflugfélag eins og Fréttablaðið greindi frá fyrst fjölmiðla fyrr í dag.
WOW air varð gjaldþrota í síðustu viku og hafa fréttir um gjaldþrotið verið ofarlega á baugi í samfélaginu síðastliðna viku þar sem um 1100 störfuðu hjá WOW air og dómínóáhrifin af gjaldþrotinu eru mikil.
„No comment“
Svarar ekki þremur spurningum.
Stundin sendi Skúla þrjár spurningar um stofnun nýja flugfélagsins en hann kaus að svara þeim ekki. „No comment“, segir Skúli í svari í sms-i. Spurningar Stundarinnar voru þær hvaða fjárfestar væru með Skúla í verkefninu, hvernig hann ætlaði sér að fjármagna fjárfestingu sína í nýja flugfélaginu og hvort hann hefði verið í sambandi við þrotabú WOW air út af kaupum á eignum.
Skúli hefur sagt frá því að hann hafi sett „aleiguna“ í rekstur WOW air og því er spurning hvort hann geti sjálfur fjármagnað fjárfestinguna upp á háar fjárhæðir í nýju flugfélagi eða hvort hann verði lítill hluthafi í þetta skiptið.
Skiptastjóri WOW air getur ekki tjáð sig
Inni í þrotabúi WOW air er meðal annars bókunarkerfi WOW, kerfi sem WOW air varði talsverðum verðmætum í, sem gæti nýst nýja flugfélaginu hans Skúla ef stofnun þess verður að veruleika. Skiptastjórar WOW air, Sveinn Andri Sveinsson og Þorsteinn Einarsson, hafa sagt frá því opinberlega að fjöldi fyrirspurna hafi borist út af eignum WOW air. Þorsteinn sagði í Morgunblaðinu fyrir þremur dögum að það væri óskandi að hægt væri að nýta eignirnar í flugrekstur.
Bókunarkerfi lággjaldflugfélags er ekki eign sem margir á Íslandi gætu hugsað sér að kaupa þar sem hún er nokkuð sérhæfð og nýtist bara í flugrekstur. Því væri ekki óeðlilegt fyrir nýtt flugfélag sem til stendur að stofna að falast eftir þessu bókunarkerfi og heldur ekki óeðlilegt fyrir þrotabús gjaldþrota flugfélags að vilja koma slíkri eign í verð þar sem mögulegir kaupendur eru ekki margir.
Sveinn Andri Sveinsson segir í samtali við Stundina að hann geti ekki tjáð sig um það hvort Skúli Mogensen hafi verið í sambandi við þrotabú WOW út af mögulegum kaupum á eignum. „No comment. Ég get hvorki né má tjá mig,“ segir Sveinn Andri.
Athugasemdir