Ísland sat hjá þegar Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun um að fylgja skuli alþjóðlegum mannúðar- og mannréttindalögum á hernumdu svæðunum í Palestínu og rétta yfir þeim sem brjóta þau. Danmörk, Ítalía og Bretland sátu einnig hjá við afgreiðslu tillögunnar en Spánn greiddi atkvæði með henni og Austurríki gegn. Ályktunin var samþykkt með 23 atkvæðum gegn átta þann 15. mars síðastliðinn ásamt þremur öðrum ályktunum um Palestínu og mannréttindavernd Palestínumanna.
Ísland greiddi atkvæði með tillögu um sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar ásamt Austurríki, Tékklandi, Ítalíu og Spáni en Bretland og Danmörk greiddu atkvæði gegn henni. Atkvæði Evrópuríkja féllu á svipaðan veg við afgreiðslu ályktana um ástand mannréttindamála á hernumdu svæðunum og um landnámsbyggðir Ísraelsmanna. Ísland og önnur Evrópuríki greiddu hins vegar atkvæði gegn ályktunartillögu frá Pakistan um ástand mannréttindamála á Golan-hæðum í Sýrlandi sem Ísraelar hertóku í sex daga stríðinu árið 1967.
Athugasemdir