Lækkun tekjuskatts til lágtekjuhópa á kjörtímabilinu nemur um 9 þúsund krónum á mánuði í stað 6.700 króna samkvæmt uppfærðum tillögum ríkisstjórnarinnar vegna svokallaðra lífskjarasamninga sem undirritaðir verða í dag.
Þetta hefur Stundin fengið staðfest. Þá verða skerðingarmörk barnabóta hækkuð meira en áður stóð til auk þess sem ráðist verður í stóraukna uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og aðgerðir til að bæta kjör leigjenda.
Samninganefndir Samtaka atvinnulífisins og VR, Eflingar, Starfsgreinasambandsins, Framsýnar og Verkalýðsfélaga Akraness og Grindavíkur hittust hjá Ríkissáttasemjara í morgun en stefnt er að því að ljúka samningsgerð upp úr hádegi og undirrita samninga um eftirmiðdaginn.
Kjarninn greindi frá því í gær að ýmsar takmarkanir á vægi verðtryggingar væru hluti af framlagi stjórnvalda inn í kjaraviðræðurnar, meðal annars að horft yrði til þess að verðtryggð jafngreiðslulán til meira en 25 ára yrðu óheimil frá og með 2020. Þá segir í ítarlegri frétt á sama miðli í dag að í aðgerðapakkanum séu einnig úrræði fyrir fyrstu kaupendur húsnæðis „um að fá sérstök lán eða til að nýta hluta af lífeyrisiðgjaldagreiðslum sínum til að komast inn á húsnæðismarkað“ auk framlengingar á nýtingu séreignarsparnaðar til að greiða niður húsnæðislán til sumarsins 2021.
Athugasemdir