Forsætisnefnd Alþingis telur „ekki unnt að fullyrða“ að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafi brotið gegn siðareglum þegar hann hélt því fram að málflutningur á borð við þann sem var viðhafður á Klaustri þann 20. nóvember væri alsiða meðal þingmanna og að þingmenn flestra flokka segðu jafnvel enn grófari hluti en sagðir voru á Klaustri.
Þetta kemur fram í niðurstöðu, sem Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna og sérstakur aukavaraforseti Alþingis, skrifar undir vegna erindis sem nefndinni barst og birtist á vef Alþingis í dag. Erindið lýtur að viðbrögðum Sigmundar Davíðs við fréttaflutningi af Klaustursmálinu, en þar er vísað til þess að samkvæmt siðareglum þingmanna mega þeir „ekki kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess með framkomu sinni“.
Forsætisnefnd vísar sérstaklega til tjáningarfrelsis þingmannsins og hefur afgreitt málið án þess að vísa því til ráðgefandi siðanefndar.
Fram kemur að í erindinu hafi meðal annars verið vísað til viðtals í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins 3. desember 2018 þar sem Klaustursmálið var til umfjöllunar. Sigmundur hafði þá verið staðinn að þátttöku í umræðum þar sem þingkonur voru kallaðar „húrrandi klikkuð kunta“, „helvítis tík“, heimilisofbeldi haft í flimtingum og talað um ráðherra sem „skrokk“ til að „ríða“.
Aðspurður um málið sagði Sigmundur að samtöl sem þessi tíðkuðust meðal þingmanna. Hann hefði heyrt þingmenn segja ýmislegt sem væri „jafnvel ennþá og töluvert grófara en það sem við höfum heyrt á þessum upptökum“.
Þetta endurtók hann í bréfi til flokkssystkina sinna nokkru síðar þar sem hann sagði þingmenn vana að að eiga í svona samtölum. „Ég hef hlustað á þingmenn flestra flokka úthúða flokksfélögum sínum og nota orðbragð sem í sumum, jafnvel mörgum, tilvikum er enn grófara en það sem birst hefur að undanförnu,“ skrifaði hann.
Í erindinu til forsætisnefndar var því haldið fram að Sigmundur hefði með þessum málflutningi brotið gegn hátternisskyldum sínum. Forsætisnefnd bendir á að þingmenn njóti „ríkrar verndar til þátttöku í opinni og frjálsri stjórnmálaumræðu í lýðræðisþjóðfélagi“. Fram kemur að ummæli Sigmundar Davíðs varði atvik, án frekari tilgreiningar, sem hann telji sig sjálfur hafa upplifað og líta verði til þess að ummælin hafi fallið í málsvörn hans vegna Klaustursupptakanna.
„Rétt er að leggja áherslu á að siðareglurnar hafa ekki þann tilgang að takmarka möguleika þingmanna til þess að bregðast við frásögnum og umfjöllun annarra um þá,“ segir í niðurstöðu forsætisnefndar. „Siðareglurnar geta á hinn bóginn, eins og áður segir, sett tjáningu alþingismanns skorður þegar kemur að því að meta hvernig hann hefur komið tjáningu sinni á framfæri og við hvaða aðstæður það er gert.“
Athugasemdir