Íslendingar losa mest af koltvísýringi á mann af öllum ríkjum innan ESB- og EFTA-svæðisins og hefur losun aukist verulega vegna aukins flugreksturs og skipaflutninga frá árinu 2012, sú þróun að losun í hagkerfi Íslands á hvern einstakling er á skjön við þróunina á hinum Norðurlöndunum.
Hvað veldur helstu losuninni hér á landi? Jú, flug og framleiðsla málma, öðru nafni stóriðja. Flugrekstur hefur vaxið gríðarlega síðustu árin og vinnsla á kísilmálmi telur hátt í losun á framleiðslu málma. Við reynum stöðugt að undanskilja þessa þætti þegar kemur að talnaefni um losun koltvísýrings Íslendinga og í alþjóðlegum stöðlum um losun. En hvernig væri nú að taka þessa veigamiklu þætti með? Við gætum tekið frumkvæðið að því.
„Almennt hefur losun á einstakling lækkað innan ESB“
Það er hægt að draga úr losun og almennt hefur losun á einstakling lækkað innan ESB og flest lönd eru komin niður í um 9 tonn á einstakling. Árið 2016 var Ísland hins vegar með hæsta gildi sem var 16,9 tonn á einstakling. Það er óboðlegt.
En mitt í loftlagssvartnættinu hefur sprottið fram vonarljós og sú von birtist á hverjum föstudegi víða um heim sem og hér á Austurvelli. Þetta er unga kynslóðin sem segir: „Hingað og ekki lengra“ og fylgir þar með 16 ára Gretu Thunberg frá Svíþjóð sem leiðir þessa alþjóðlegu mótmælabylgju. Krafa unga fólksins er skýr, að grípa til enn róttækari aðgerða til að sporna við loftslagsbreytingum. Krafa unga fólksins er að verja 2,5% af heimsframleiðslu á ári til ársins 2035 til að halda hlýnun loftslags innan 1,5 gráða.
Umhverfisráðherra vill vel og er að gera mjög góða hluti. Aðgerðaáætlunin er mjög gott skref og önnur verkefni líka en við verðum að taka stærri skref og labba miklu hraðar, jafnvel spretta úr spori. Betur má ef duga skal, hlustum á kynslóðir framtíðarinnar sem skrópa í skólum til að ganga um götur heimsins og kalla á að við stóraukum fjármuni til raunverulegra aðgerða í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, kalla á að við hin eldri bregðumst við af alvöru. Nú hafa 12.000 vísinda- og fræðimenn í Þýskalandi, Austurríki og Sviss tekið undir kröfur loftslagsverkfallanna og við eigum að gera það líka.
Höfundur er þingmaður
Athugasemdir