Áhrif gjaldþrots WOW air verða einna áþreifanlegust hjá íbúum á Suðurnesjum. Fjöldi manns á svæðinu vinnur við flugvallarstarfsemi eða tengda þjónustu. Um þúsund manns missa vinnuna hjá WOW air, en auk þess mun fjöldi fyrirtækja í ferðaþjónustu og öðrum geirum þurfa að draga saman seglin.
Bæjarráð Reykjanesbæjar sendi frá sér bókun í gær þar sem gjaldþrot WOW air er harmað. „Ljóst er að þetta áfall mun hafa mikil samfélagsleg áhrif til skamms tíma, ekki síst fyrir Reykjanesbæ þar sem mikill fjöldi starfsmanna býr,“ segir í bókuninni. „Bæjarráð leggur áherslu á að hugað sé að velferð og hagsmunum allra starfsmanna og fyrirtækja sem þetta mun hafa áhrif á.“
Þá sendi Magnús Stefánsson, bæjarstjóri Suðurnesjabæjar, frá sér tilkynningu vegna málsins. Bæjarfélagið, sem er sameinað sveitarfélag Sandgerðis og Garðs, undirbýr nú viðbrögð og aðgerðir vegna gjaldþrotsins.
„Þótt svo ekki liggi fyrir hver verða bein áhrif á Suðurnesjabæ og íbúa sveitarfélagsins, þá má reikna með að þau verði nokkur,“ segir í tilkynningu Magnúsar. „Auk þess að allt starfsfólk WOW air hafi misst sín störf, hefur komið fram að einstök fyrirtæki sem hafa veitt flugfélaginu beina og óbeina þjónustu þurfa að draga saman starfsemi sína og því munu væntanlega fylgja uppsagnir starfsfólks.“
Bent er á að Flugstöð Leifs Eiríkssonar og fjölmörg þjónustufyrirtæki á flugstöðvarsvæðinu séu staðsett í Suðurnesjabæ. „Fjöldi íbúa sveitarfélagsins starfar hjá þeim fyrirtækjum sem þar hafa starfsemi en ekki liggja fyrir upplýsingar um hvernig atburðir dagsins munu koma við það fólk. Þá má reikna með að áhrif verði á starfsemi annarra ferðaþjónustufyrirtækja, án þess að upplýsingar um það liggi fyrir.“
Athugasemdir