Virði hlutabréfa Icelandair Group hefur hækkað um tæp 13 prósent í Kauphöllinni í dag eftir að helsti samkeppnisaðilinn, WOW air, hætti starfsemi og aflýsti öllum flugferðum. Alls nemur velta hlutabréfa í Icelandair frá því í morgun 234 milljónum króna.
Um leið hefur flugmiðaverð Icelandair snarhækkað – um allt að 200 prósent á örfáum dögum.
Stundin ræddi við mann í morgun sem átti pantaða aðra leið til Dublin 10. maí næstkomandi með WOW Air. Nú á mánudaginn, 25. mars, kannaði hann hvað flugið myndi kosta með Icelandair. Þá kostaði flugið um 30 þúsund krónur. Hann ákvað að bíða átekta vegna frétta um að hugsanlega tækist að bjarga Wow Air. Í morgun, þegar ljóst var að búið væri að loka WOW Air, ætlaði hann að kaupa miðann hjá Icelandair. Þá kom í ljós að verðið hafði hækkað í tæpar 90 þúsund krónur.
„Við viljum árétta að engar verðbreytingar eru að eiga sér stað hjá Icelandair,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu. „Verð á flugmiðum miðast við eftirspurn og síðustu daga og vikur hefur verið mikil ásókn í flug hjá okkur og nú vegna þeirra afsláttarfargjalda sem við erum að bjóða farþegum WOW. Í einhverjum tilfellum eru einungis sæti á efsta farrými laus eða flug fullbókuð.“
Tilkynnt hefur verið um sérstakan afslátt hjá Icelandair til þeirra sem áttu bókað sæti með WOW air næstu tvær vikurnar auk þess sem áhafnir hins gjaldþrota flugfélags verði aðstoðaðar við að komast heim þeim að kostnaðarlausu.
Um leið og virði hlutabréfa í Icelandair hefur hækkað umtalsvert hefur virði flestra annarra félaga í Kauphöllinni lækkað. Mesta lækkunin í morgun er hjá Högum, um 4,6 prósent, en þar á eftir koma fasteignafélögin EIK og Reginn með tæplega 4 prósenta lækkun á virði hlutabréfa.
Athugasemdir