WOW air skilaði inn flugrekstarleyfi sínu til Samgöngustofu klukkan 8 í morgun eftir að ljóst var að leigusalar flugfélagsins í Bandaríkjunum létu kyrrsetja flugvélar. Vefur Samgöngustofu mun birta upplýsingar til að hjálpa farþegum að komast á áfangastað.
Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu, segir nána samvinnu hafa átt sér stað á milli stofnunarinnar og WOW air á meðan viðræður flugfélagsins við kröfuhafa og fjárfesta stóðu yfir. Því hafi ekki komið á óvart að leyfinu hafi verið skilað inn. „Endurfjármögnun er heimil, svo framarlega sem flugöryggi er aldrei stefnt í hættu,“ segir hún. „Þannig hefur þetta máli verið unnið af Samgöngustofu í samskipti við þennan flugrekanda eins og aðra. Það er alltaf í fyrsta, öðru og þriðja sæti.“
Fljótlega verða birtar á vef Samgöngustofu upplýsingar um svokölluð björgunarflug, til að hjálpa farþegum WOW air sem ekki hafa komist á áfangastað vegna endaloka flugfélagsins. „Vefurinn okkar verður miðjan í upplýsingagjöf til farþega, fjölmiðla og annarra hlutaðeigandi,“ segir Þórhildur. „Við miðlum upplýsingum jafnóðum og þær birtast. Verkefnið í dag er að hjálpa farþegum að komast á áfangastað eins fljótt og hægt er.“
Athugasemdir