Fjórir starfsmenn barnaverndarnefnda greindu frá því í viðtölum við Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar að Bragi Guðbrandsson, fyrrverandi forstjóri Barnaverndarstofu, hefði „tekið upp tólið og skipað fyrir um aðgerðir“ í einstökum barnaverndarmálum. Starfsmenn Barnaverndarstofu telja að um „misskilning“ sé að ræða.
Þetta kemur fram í nýbirtri úttekt stofnunarinnar um „aðgerðir til þess að endurvekja traust og trúnað í málaflokki barnaverndar“.
Tilefni úttektarinnar eru atburðir sem urðu síðla árs 2017, þegar barnaverndarnefndir á höfuðborgarsvæðinu kvörtuðu undan verklagi Barnaverndarstofu og tilgreindu 17 skráð tilvik þar sem Bragi Guðbrandsson var sakaður um óeðlileg afskipti af barnaverndarmálum og sagður hafa sýnt yfirgang, farið út fyrir valdheimildir sínar og brotið gegn ákvæðum barnaverndarlaga og meginreglum stjórnsýslulaga.
Velferðarráðuneytið lét ekki kanna tilvikin eða hvað hæft væri í ásökununum. Hins vegar samdi Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra við Braga um að hann tæki sér leyfi frá Barnaverndarstofu en yrði áfram á fullum forstjóralaunum og tilnefndur til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna sem fulltrúi Norðurlandaþjóða. Fékk Bragi góða kosningu í nefndina þann 29. júlí 2018.
Vilja skerpa skilin milli ráðgjafar og eftirlits
Í úttekt Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar er fjallað með almennum hætti um samskipti og samstarf Barnaverndarstofu og starfsmanna barnaverndarnefnda á grundvelli spurningalista og viðtala við starfsmenn félagsþjónustu, barnaverndar og Barnaverndarstofu.
Stofnunin leggur til að gerður verði skýrari greinarmunur á ráðgjafarhlutverki Barnaverndarstofu og eftirlitshlutverki hennar auk þess sem starfsmenn barnaverndarnefnda og Barnaverndarstofu komi sér saman um verklagsreglur varðandi skráningu og miðlun upplýsinga.
Með þessu megi draga úr óvissu og árekstrum á borð við þá sem voru áberandi í fjölmiðlum árin 2017 og 2018. „Ljóst er af frásögnum viðmælenda að fjölmiðlaumfjöllun um barnaverndarmál á Íslandi hefur haft áhrif á starfsemi og starfsanda í barnaverndarmálum,“ segir í úttektinni. „Eða eins og einn viðmælandi orðaði þetta, að það hafi hreinlega verið fjölmiðlaárás sem setti allt á annan endann í barnaverndarmálum.“
Núningur og vantraust
Ýmislegt í úttektinni endurspeglar þá tortryggni og togstreitu sem ríkt hefur milli barnaverndarnefnda og Barnaverndarstofu. Fram kemur að nokkrir svarendur frá barnaverndarnefndum telji viðmót starfsmanna Barnaverndarstofu neikvætt og einkennast af hroka og valdboði.
Þá sé lítið traust borið til símaráðgjafar, enda sé hún ekki skráð hjá Barnaverndarstofu, og ein barnaverndarnefndin hafi þurft að kaupa lögfræðiráðgjöf frá lögmannsstofu vegna viðbragðsleysis Barnaverndarstofu þegar leitað var ráða þar.
„Þegar spurt var sérstaklega um samskipti við starfsmenn Barnaverndarstofu nefndu margir viðmælendur núning í samskiptum sínum við starfsmenn stofunnar,“ segir í úttektinni.
Engu að síður taldi meirihluti svarenda, 14 manns, að eftirlit Barnaverndarstofu með barnaverndarnefndum hefði leitt til vandaðri málsmeðferðar barnaverndarmála. Fimm töldu að svo væri ekki.
„Í viðtölunum var spurt um aðkomu Barnaverndarstofu að einstökum málum barnaverndarnefnda og hvort dæmi væru um að Barnaverndarstofa tæki þátt í vinnslu máls og ef til vill að ákveða aðgerðir án samráðs við viðkomandi barnaverndarnefnd. Flestir viðmælenda könnuðust við umræðu um slík mál en einungis fjórir sögðust hafa dæmi frá sinni barnaverndarnefnd um slík afskipti. Í öllum fjórum tilvikunum hafi það verið forstjóri Barnaverndarstofu sem hafði, að sögn starfsmanna, tekið upp tólið og skipað fyrir um aðgerðir í máli.“
Gæða- og eftirlitsstofnunin bar þetta undir starfsmenn Barnaverndarstofu:
„Í spurningakönnuninni sem starfsmenn barnaverndarnefnda svöruðu kom fram að einhverjir þeirra upplifðu að Barnaverndarstofa væri farin að taka þátt í vinnslu mála og skipa fyrir umaðgerðir. Starfsmenn Barnaverndarstofu voru því spurðir í viðtölum hvort þeir teldu að slíkt hefði gerst. Almennt töldu starfsmennþað vera misskilning og að eðli ráðgjafarinnar væri að benda á það sem vantaði, til dæmis í umsóknum, þarsem lög gerðu kröfu um gögn og rökstuðning. Þetta sé þó stundum flókið í erfiðum málum þar sem mikil þörf væri fyrir leiðbeiningar frá Barnaverndarstofu um öll skref málsins.“
Segja „annarlegar ástæður og óvild“ hafa ráðið för
Barnaverndarstofa brást nokkuð harkalega við vinnu Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar. Í athugasemdabréfi stofnunarinnar frá 9. nóvember 2018 eru settar fram spurningar um lagalegan grundvöll athugunarinnar og gagnrýnt að velferðarráðuneytið skuli vísa til bréfs skrifstofu félagsþjónustu um að nauðsynlegt sé að grípa til aðgerða til að endurvekja traust og trúnað í barnaverndarkerfinu.
Telur Barnaverndarstofa ljóst að „annarlegar ástæður og óvild“ hafi ráðið för þegar ráðuneytið brást við kvörtunum barnaverndarnefnda í ársbyrjun 2018 og komst að þeirri niðurstöðu að Bragi Guðbrandsson hefði farið út fyrir verksvið sitt í Hafnarfjarðarmálinu svokallaða, niðurstöðu sem síðar var dregin til baka eftir að Stundin fjallaði með ítarlegum hætti um málsatvik og gerð var sérstök úttekt á málsmeðferð ráðuneytisins.
Brutu persónuverndarlög en leggjast gegn „þöggun“
Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu í fyrra að Barnaverndarstofa hefði brotið persónuverndarlög með því að afhenda Stundinni og RÚV hundruð blaðsíðna af gögnum þar sem meðal annars var fjallað um einstök barnaverndarmál, umgengnisdeilur foreldra og félagsleg vandamál.
Í úttekt Gæða- og eftirlitsstofnunarinnar er lagt til að starfsmenn Barnaverndarstofu og starfsmenn barnaverndarnefnda fái utanaðkomandi aðstoð við að móta verklag varðandi samskipti við fjölmiðla og semji verklagsreglur.
Barnaverndarstofa gagnrýnir þetta og ýjar að því að slíkt myndi fela í sér skerðingu á tjáningarfrelsi og mannréttindum opinberra starfsmanna.
„Mikilvægt er í þessu sambandi að hafa í huga að opinber stjórnvöld starfa fyrst og fremst í þágu almennings. Frumskyldur Barnaverndarstofu í þessum efnum lúta því að því að starfa af heilindum fyrir almenning og í því felst m.a. skylda til að starfa heiðarlega og eins opið og hægt er og að stofan taki ekki þátt í þöggun um stöðu barnaverndar á Íslandi,“ segir í athugasemdabréfi stofnunarinnar.
Athugasemdir