Það eru aðgangsharðir sölumenn á sveimi í íslenskri pólitík. Varan sem þeir selja er sérstaklega hönnuð til að höfða til okkar þegar við erum veik fyrir, aum, sjálfsálitið lítið og stutt í gremjuna. Það er blandað í hana ótta við annað fólk, sérstaklega útlent og framandi fólk, eða fólk sem á bágt og reynir að höfða til manngæsku okkar.
Sölumennirnir segja að þetta sé ókunnugt fólk og hættulegt, það sé að reyna að taka frá okkur húsaskjólið sem við höfum komið okkur upp og matinn sem við eigum. Það sé verið að misnota góðmennsku okkar og við eigum að standa saman sem þjóð og bægja frá yfirvofandi hættu.
Þegar nokkrir allslausir hælisleitendur mótmæltu á Austurvelli til að vekja athygli á kröfum sínum tóku vaskir lögreglumenn á móti þeim í fullum herklæðum og sprautuðu á þá piparúða fyrir að reisa tjald.
Það fór eftirvæntingarhrollur um marga.
Af hverju skyldum við ekki kaupa þessa vöru og greiða fyrir hana með atkvæði okkar?
Við erum heimsmeistarar í að kaupa.
Og skeytum frekar lítið um afleiðingarnar.
Eins og upptrekktir hermenn marserum við daglega um í stórmörkuðum og röðum ódýrum iðnaðarframleiddum vörum í kerrur, vörum sem eru rækilega innpakkaðar í plast, við kaupum ódýr föt sem barnshendur hafa saumað í heilsuspillandi húsnæði í Bangladesh og gónum á farsíma sem voru settir saman í þrælaverksmiðjum.
Meirihlutinn endar síðan á sorphaugunum.
Og af hverju þá ekki þetta?
Þetta er mjög vinsæl vara erlendis og margir stjórnmálamenn hafa risið upp á stjörnuhimininn fyrir að versla með hana.
En þótt barið væri á trumbur ótta og þjóðernishyggju mættu bara örfáar hræður til að mótmæla hælisleitendum, þetta voru um það bil fimm til tíu Íslendingar sem lögðu á sig að standa með kröfuspjöld fyrir utan Alþingishúsið en nokkru fleiri nöldruðu á Facebook.
Tímasetningin var óheppileg.
Ofbeldismaður hafði ráðist að hópi fólks við mosku í Christchurch í Nýja-Sjálandi og myrt karla, konur og börn í nafni ótta og útlendingaandúðar.
Við erum kannski heimóttarleg, hrædd og fordómafull en við erum ekki þar.
Þessi dræma þátttaka virðist hafa valdið þó nokkrum fyrrverandi og núverandi stjórnmálakörlum í hinum hefðbundnu stjórnmálaflokkum vonbrigðum. Réttur hælisleitenda til að mótmæla og tjá skoðun sína er að þeirra mati aðför að virðingu Alþingis, þessarar gömlu lýðræðisstofnunar okkar. Og það er aðför að kristinni kirkju að hælisleitendur hafi fengið að pissa í salerni í anddyri kirkjunnar þótt inntak kristinnar trúar sé náungakærleikurinn.
Og það má ekki gleyma að hælisleitendurnir höfðu móðgað styttu. Styttan er kirfilega steypt á stallinn sinn og tekur ævinlega þátt í öllum mótmælum, óháð því um hvað þau snúast, oftast með fuglaskít á öxlunum, stundum með bleika húfu eða trefil eða merkimiða um hálsinn og kröfuspjöld við fótskör sína. Öllum að óvörum var henni herfilega misboðið þar sem hún horfðist þykkjuþung í augu við alþingismenn þjóðarinnar sem hlupu henni samstundis til varnar.
En er það grjótið í Alþingi, timbrið í dómkirkjunni og styttan af Jóni sem krefst virðingar okkar en ekki inntakið í lýðræðinu, trúnni og sjálfstæði þjóðarinnar?
Er það kannski lærdómurinn sem við eigum að draga?
Vissulega viljum við ekki jafna Alþingi við jörðu, eða dómkirkjuna og ekki heldur steypa Jóni af stalli sínum, en án kærleika, lýðræðis og upplýsingar er þetta ekki annað en táknmynd um vald.
Virðingin fyrir valdinu er ekki æðri öllu öðru. Ekki heldur þótt menn spúi hatri, ótta og piparúða yfir samborgara sína.
Nú hafa mótmælendurnir flúið kuldann, tekið upp tjaldhælana og snúið aftur á Ásbrú. Allslausir, vonlausir og niðurlútir menn.
Enn eitt uppþotið er að baki í íslensku samfélagi.
Sölumennirnir halda áfram að sveima um með vöruna og reyna að fá fólk til að kaupa. Nú hafa þeir fengið verðugan liðsauka úr flestum flokkum á hægri vængnum. Stöku fólk sem upplifir sig útundan í samfélaginu horfir á þá löngunaraugum. Er það satt að ekki sé hægt að hækka ellilífeyrinn og örorkubæturnar af því þessir hælisleitendur lifi lúxuslífi á kostnað okkar hinna? Eru þeir skítugir og flytja með sér sýkla sem eru ónæmir fyrir sýklalyfjum? Eru þetta bara glæpamenn sem ætla að nauðga íslenskum konum og börnum?
„Það eina sem þú greiðir er atkvæði þitt“
Fleiri og fleiri reifa þessi mál á samfélagsmiðlum í fullri alvöru.
Er kannski meira freistandi að kaupa vöruna þegar það eru áhrifamenn í samfélaginu sem rétta hana fram?
Það eina sem þú greiðir er atkvæði þitt.
Sölumennirnir eru að kaupa sér vald og í krafti þess munu þeir krefjast virðingar þinnar.
Líka þegar þú ferð að sjá í gegnum þá og óttastjórnmálin sem þeir stunda.
Þá áttu samt að kyssa einkennisbúninga valdsins.
Með góðu eða illu.
Athugasemdir