Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra verður nýr dómsmálaráðherra. Þetta tilkynnti Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, á blaðamannafundi rétt í þessu.
Þórdís Kolbrún mun taka sæti í ríkisstjórn á ríkisráðsfundi klukkan fjögur. Hún var aðstoðarmaður Ólafar Nordal dómsmálaráðherra og hefur því reynslu af störfum í ráðuneytinu. Þá er hún menntuð sem lögfræðingur.
Skipunin verður tímabundin, að sögn Bjarna. „Maður hleypur ekki til og skipar í ráðherrastól á innan við sólahring,“ segir Bjarni. Segir hann samstöðu hafa verið í þingflokknum um ákvörðunina.
Ekki er loku skotið fyrir að Sigríður Andersen, fráfarandi dómsmálaráðherra, snúi aftur í ráðuneytið, að sögn Bjarna. „Ég sé ekki fram á að það gerist á næstu vikum,“ segir Bjarni. „Það er alveg galopið fyrir það.“
Aðspurður sagði Bjarni að niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu um skipun dómara við Landsrétt, sem leiddi til afsagnar Sigríðar, hafi komið ríkisstjórninni á óvart. Sagði hann að skrifuð hefðu verið minnisblöð í öðrum ráðuneytum en sínu þar sem farið hafi verið yfir mögulegar niðurstöður, en þessi hafi komið í opna skjöldu.
Athugasemdir