Með langvarandi stríðsátökum, ofbeldi og ofsóknum og neikvæðum áhrifum hlýnunar jarðar hefur þörfin fyrir mannúðaraðstoð og skipulögð viðbrögð aukist. Þar þurfum við Íslendingar að sýna ábyrgð – sérstaklega gagnvart fólki sem er í viðkvæmri stöðu og leitar alþjóðlegrar verndar, ekki síst börnum.
En því miður er stefnuleysi stjórnvalda í málaflokknum eftirtektarvert. Útlendingastofnun styðst við þrönga og íhaldssama túlkun á útlendingalögum í skjóli ríkisstjórnarinnar.
Þekkt er að einstaklingum sem tilheyra sérstaklega viðkæmum hópum, svo sem fylgdarlausum börnum, þunguðum konum, fötluðu fólki og þolendum kynferðisofbeldis, hefur ítrekað verið vísað úr landi án þess að mál þeirra fái efnislega meðferð. Síðasta dæmið er einstæð móðir með 12 og 14 ára börn sem á að senda aftur til Grikklands að óbreyttu – rífa á börnin upp úr skóla þrátt fyrir að Alþingi hafi nánast samhljóða tekið ákvörðun um að breyta útlendingalögum m.a. til þess að gæta að réttindum barna. Fjölskyldur og einstaklingar hafa verið sóttar án fyrirvara eða samráðs og send burt, oft í ömurlegar aðstæður. Tveir flóttamenn í flóttamannabúðunum á Ásbrú hafa reynt að svipta sig lífi með stuttu millibili. Aldursgreining ungmenna byggir enn á tanngreiningum þrátt fyrir að það sé talin ónákvæm aðferð, og þar með ómannúðleg. Börn þeirra hælisleitenda, flóttafólks og útlendinga sem hér fá að vera eru utanvelta í íslensku skólakerfi. Og svona væri lengi hægt að telja.
En vont getur enn versnað.
Nýlega voru lagabreytingar um hatursorðræðu kynntar sem þrengja að réttindum minnihlutahópa - þar á meðal útlendinga og fólks á flótta.
Og nú boðar ríkisstjórnin frumvarp um breytingar á lögum um útlendinga sem skerða verulega réttindi og kjör umsækjenda um alþjóðlega vernd.
Frumvarpið gerir endurupptöku mála enn erfiðari, takmarkar andmælarétt og lögboðinn umhugsunarfrest. Ríkari sönnunarkröfur eru gerðar en umsækjendur fá samt styttri tíma til að afla gagna. Auðvelda á brottvísanir til ríkja á borð við Ungverjaland, sem er þekkt fyrir harðneskjulega meðferð á flóttafólki, og Grikkland sem ræður ekki við þann fjölda sem þangað kemur. Það sem er þó kannski grimmast er að það á að koma í veg fyrir að nánustu aðstandendur kvótaflóttafólks geti fengið dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar.
Ég verð bara að viðurkenna að ég skil ekki hvað í ósköpunum kallar á enn þrengri og íhaldssamari útlendingastefnu hér á Íslandi. Við berum ábyrgð. Það ætti auk þess að vera öllum ljóst hversu mikið útlendingar leggja mikið til þjóðarbúsins hvort sem við horfum til menningar eða efnahags.
Það væri óskandi að nýr ráðherra sneri við þeirri óheillaþróun sem verið hefur á málaflokknum í tíð fráfarandi dómsmálaráðherra.
Við stöndum á krossgötum þar sem við getum valið andúð, tortryggni og hræðslu, einangrunarhyggju og íhaldssama utanríkispólitík – eða sýnt mannúð, víðsýni og ábyrgð og veitt fólki á flótta öryggi og skjól. Þá kemur fyrst í ljós hvort við erum lítil þjóð eða stór.
Athugasemdir